Þrýsta á stjórnvöld varðandi sálfræðiþjónustu

Samfélagsmiðlaherferð SÍF – #MÍNGEÐHEILSA. Sara Dís Hafþórsdóttir nemandi í grafískri …
Samfélagsmiðlaherferð SÍF – #MÍNGEÐHEILSA. Sara Dís Hafþórsdóttir nemandi í grafískri miðlun við Tækniskólann hannaði merki herferðarinnar.

Samband íslenskra framhaldsskólanema hóf í gær herferð á samfélagsmiðlum í þeim tilgangi að þrýsta á stjórnvöld að bjóða upp á ókeypis sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum.

Af viðbrögðunum og fjölda þátttakenda að dæma er ljóst að þörfin er mikil en hundruð hafa nú sett inn nýjar prófílmyndir á Facebook, myndir sem tákna ýmist að þeir séu framhaldsskólanemar sem þurfi á sálfræðiþjónustu að halda eða þekki framhaldsskólanema sem þurfi á sálfræðiþjónustu að halda,“ segir í tilkynningu.

„Þá notast þátttakendur við myllumerkið #míngeðheilsa en hugmyndin er að þangað geti fólk deilt reynslusögum, ekki einungis nemendur heldur einnig fyrrverandi nemendur sem hafa þurft að hætta í framhaldsskóla vegna andlegrar vanlíðanar, foreldrar og starfsfólk skólanna,“ segir í tilkynningu.

Umræðan um gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum hefur lengi verið í gangi meðal nemenda, skólastjórnenda og foreldra og einnig á Alþingi.

„Þrisvar hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga þar sem lagt er til að gjaldfrjáls sálfræðiþjónusta verði í boði í framhaldsskólum en hún hefur aldrei komist lengra en í fyrstu umræðu.

Þá lýstu ýmsir fulltrúar framboðsflokkanna yfir stuðningi sínum við hugmyndina fyrir síðustu alþingiskosningar en engu að síður svaraði enginn eftirfarandi aðila tölvupósti frá framkvæmdastjórn SÍF þar sem bent var á að ekki væri gert ráð fyrir þjónustunni í fjárlagafrumvarpinu; mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra, aðstoðarmenn ráðherra, fulltrúa í allsherjar- og menntamálanefnd, fjárlaganefnd og velferðarnefnd,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert