Skylda Hörpu að sækja milljónirnar 35

Lögmaður Hörpu segir nauðsynlegt að fá milljónirnar 35 inn í …
Lögmaður Hörpu segir nauðsynlegt að fá milljónirnar 35 inn í uppgjör tónleikanna. mbl.is/Árni Sæberg

„Það eru þarna 35 milljónir sem hafa farið í þennan ágæta umboðsmann og hans fyrirtæki. Við verðum auðvitað að komast að því hvað varð um þessa fjármuni og ég trúi nú ekki öðru en að þetta greiðist til baka,“ segir Baldvin Björn Haraldsson, lögmaður tónlistarhússins Hörpu.

Í gærdag fór fram málflutningur vegna frávísunarkröfu Kára Sturlusonar og félags hans KS Productions fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Harpa stefndi Kára og fyrirtæki hans í byrjun nóvember, þar sem Kári endurgreiddi ekki 35 milljón króna fyrirframgreiðslu sem hann fékk af miðasölutekjum vegna tónleika Sigur Rósar sem fram fóru í desember. Einhverjar eignir Kára hafa þegar verið kyrrsettar vegna málsins, en Harpa þarf að höfða staðfestingarmál til þess að fá kyrrsetninguna staðfesta.

Í umfjöllun Fréttablaðsins um málflutninginn í dómsal í gær kemur fram að lögmaður Kára, Steinbergur Finnbogason hafi farið fram á frávísun á kyrrsetningarkröfunni með vísan í vanreifan og óskýrðar kröfur.

Baldvin Björn segist verða „afar vonsvikinn“ ef dómurinn fellst á röksemdir verjandans í málinu.

Óuppgerðir hlutir á milli Kára og Sigur Rósar skipti ekki máli hér

Hann segir jafnframt sérkennilegt að Kári sé tilbúinn að eyða fjármunum í lögmann til að verja sig fyrir því að þessir fjármunir komi til baka, í stað þess að semja um greiðslur.

„Það er eitthvað tal um að það séu einhverjir óuppgerðir hlutir á milli Sigur Rósar og hans, en það kemur þessu máli bara ekkert við. Það þarf að fá þetta fyrst inn í uppgjörið á tónleikunum og síðan geta menn tekist á um það, þeir aðilar, hvort það séu einhverjir óuppgerðir hlutir í þeirra samstarfi. Ég hef ekki hugmynd um það,“ segir Baldvin Björn.

Hann segir að þegar Sigur Rós hafi rift sínu samstarfi við Kára þá hafi legið fyrir að hann væri ekki að fara undirbúa tónleikana.  

„Þar af leiðandi hafði ekkert annað við þessa fjármuni að gera annað en að skila þeim inn í uppgjörið á tónleikunum,“ segir Baldvin, en fyrirframgreiðslan til Kára hafði verið veitt í því trausti að hann myndi nota peningana til þess að undirbúa tónleikana.

Aðspurður segir Baldvin Björn að svo sé alltaf þegar Harpa greiði tónleikahöldurum fyrirfram af miðasöluverði.

„Ég veit ekkert hvar þessir peningar eru eða hvernig þeim hefur verið ráðstafað. Við viljum bara fá þá inn aftur og ef það eru einhverjar eignir sem við þurfum að sækja til að reyna að ná upp í þessa kröfu þá gerum við það að sjálfsögðu. Það er bara skylda Hörpu að reyna að ganga eftir því,“ segir Baldvin Björn.

Fréttin hefur verið uppfærð:
Áður sagði að Kári hefði verið umboðsmaður Sigur Rósar frá árinu 2005. Það er ekki rétt, samkvæmt ábendingu sem barst frá meðlim sveitarinnar.

Kári hefur hins vegar starfað með hljómsveitinni sem aðstoðarmaður og stundum sem tónleikahaldari, en hefur engan samning né umboð frá sveitinni.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert