Seltjarnarnesbær má fjarlægja söluskála

Húsnæði Landsréttar að Vesturvör
Húsnæði Landsréttar að Vesturvör mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Seltjarnarnesbæ er heimilt að fjarlægja fimmtíu fermetra söluskála sem stendur við íþróttamiðstöð bæjarins. Söluskálinn hefur um tíma staðið auður, en síðast hýsti hann verslunina Systrasamlagið, sem nú er til húsa á Óðinsgötu í Reykjavík.

Gerður var fimmtán ára lóðarleigusamningur við þáverandi eiganda söluskálans árið 1999 með því skilyrði að skálinn skyldi rifinn að samningstíma loknum. Árið 2012, um átján mánuðum áður en samningurinn rann út, keypti annað fyrirtæki, Ingólfstorg ehf., skálann og óskaði eftir framlengingu til fimmtán ára. Var því hafnað af bænum, en eigandanum þess í stað boðið að gera samning til eins árs í senn, gegn því að skálinn yrði rifinn að samningstíma loknum. 

Í málsvörn sinni sagðist eigandi söluskálans ekki kannast við þær kvaðir. Hann hefði verið rukkaður um lóðarleigu árið 2015 og því litið svo á að samningurinn hefði verið framlengdur til fimmtán ára. Neitaði hann því að fjarlægja skálann.

Bærinn stefndi eiganda skálans fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og hafði sigur en stefndi áfrýjaði málinu til Landsréttar, sem úrskurðaði  í dag bænum í vil. Eigandi skálans var dæmdur til að borga bænum 550.000 krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert