Morgunblaðið langvinsælast á timarit.is

Mest sóttu titlarnir á timarit.is árið 2017.
Mest sóttu titlarnir á timarit.is árið 2017.

Morgunblaðið er eins og jafnan áður langvinsælasti titillinn á vefnum timarit.is þar sem safnað hefur verið saman rúmlega 1.100 titlum af prentuðum blöðum og tímaritum frá upphafi.

Hægt er að lesa alla áranga Morgunblaðsins frá stofnun 1913 fram á seinni ár. Á hverju ári bætist nýr árgangur við.

25,42% þeirra sem heimsóttu timarit.is á árinu 2017 fóru inn á Morgunblaðið. Næstvinsælasti titillinn í fyrra var Dagblaðið-Vísir og síðan komu Fréttablaðið og Tíminn, sem kom út árin 1917-1996.

Yfir milljón heimsóknir í fyrra

Landsbókasafnið – Háskólabókasafn hannaði og rekur vefinn timarit.is. Heimsóknir síðustu fimm árin hafa verið fremur stöðugar og í fyrra voru þær 1.166.446.

Blöðin og tímaritin á timarit.is hafa að geyma, auk almenns fréttaefnis og auglýsinga, mikið efni á sviði bókmennta, sagnfræði, ættfræði, þjóðlífs, menningar, atvinnuvega og viðskipta. Jafnt og þétt bætast við safnið fleiri titlar. Þeir eru nú 1.147 og bættust sextíu nýir við í fyrra. Heildarfjöldi myndaðra blaðsíðna er nú 5.485.883. Langflestar blaðsíðurnar eru úr Morgunblaðinu, næstum 1,2 milljónir blaðsíðna.

Vefurinn timarit.is er einstakur í sinni röð í heiminum. Sambærilegir gagnagrunnar eru engir jafn víðtækir. Þá er allt efnið í opnum og ókeypis aðgangi. Mikið er um að fræðimenn og skólafólk noti vefinn við rannsóknir og ritgerðasmíð. Þá leita menn að ýmsu persónulegu efni og sér til fróðleiks og skemmtunar.

Á vefnum eru einnig blöð og tímarit frá Færeyjum og Grænlandi. Er það efni sett inn í samstarfi við landsbókasafn landanna. Grænlenskt blað, Atuagagdliutit, er á lista yfir mest sóttu blöðin að þessu sinni.

Atuagagdliutit er fyrsta grænlenska dagblaðið og hét áður Grönlandsposten.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert