Sýkna það eina í stöðunni fyrir Hæstarétt

Stefán Már Stefánsson lagaprófessor, segir stöðu Guðmundar- og Geirfinnsmálanna flókna …
Stefán Már Stefánsson lagaprófessor, segir stöðu Guðmundar- og Geirfinnsmálanna flókna en áhugaverða frá lagalegu sjónarhorni. Málið sé allt sorgarsaga. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, segist ekki sjá neitt annað í stöðunni en að Hæstiréttur sýkni fimmmenningana sem sakfelldir voru í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu fyrir 38 árum, fallist hann á skilyrði endurupptöku málanna.

Endurupptökunefnd samþykkti á síðasta ári beiðnir fimm manna sem sakfelldir voru fyrir aðild að málunum tveimur um að þau yrðu tekin upp að nýju. Í greinargerð setts saksóknara sem skilað var til Hæstaréttar í gær krefst hann svo sýknu byggða á rökum endurupptökunefndarinnar.

Staðan er því sú að engin meiriháttar ágreiningur er á milli ákæruvaldsins og verjenda fólksins og því vakna spurningar um hvort að flytja þurfi málið yfir höfuð.

Stjórnvald en ekki dómsstól

Stefán Már segir að áður en málið komist til efnislegrar meðferðar að nýju þurfi Hæstiréttur fyrst að athuga hvort að skilyrði endurupptökunefndar séu fyrir hendi. „Þetta er stjórnvald en ekki dómsstóll og því á Hæstiréttur síðasta orðið um það hvort skilyrði endurupptökunnar hafi verið fyrir hendi,“ segir Stefán Már í samtali við mbl.is.

Verði það metið svo að skilyrðin séu fyrir hendi segist Stefán ekki sjá aðra atburðarás fyrir sér en að Hæstiréttur fallist á sýknu ef lagt er til grundvallar að bæði saksóknari og verjendur muni krefjast hennar.

Engin fyllilega sambærileg mál hafa átt sér stað í fortíðinni. Fordæmi er fyrir því að Hæstiréttur hafi ekki fallist á skilyrði nefndarinnar um endurupptöku máls en í því tilviki hafði ákæruvaldið mótmælt niðurstöðunni. Annað er uppi á teningnum nú þar sem settur saksóknari, þ.e. fulltrúi ákæruvaldsins, krefst sýknu byggða á rökum endurupptökunefndar.

Nokkur dómsmál hafa verið endurupptekin í gegnum tíðina en áður en endurupptökunefnd var stofnuð árið 2013 hafi það verið Hæstaréttar sjálfs að ákveða slíkt. „Þá var það Hæstiréttur sjálfur sem skar úr um hvort skilyrði endurupptöku væru fyrir hendi og því kom vitanlega engin endurskoðun á þeim ákvörðunum við endurflutning málsins,“ segir Stefán „Nú er komin hreyfing á það að breyta þessari endurupptökunefnd í endurupptökudómstól. Hjá þeim dómstóli myndi þá endanleg ákvörðun liggja um skilyrði endurupptöku.“

Stefán man ekki til þess að saksóknari hafi farið fram á sýknu í enduruppteknum málum. „Það myndi ég halda að væri fordæmalaust.“

Fallist Hæstiréttur á skilyrði endurupptökunnar, verður málið flutt fyrir Hæstarétti?

„Það verður ákvörðun réttarins,“ segir Stefán. „Ef enginn ágreiningur er, þá þarf nú ekki langt mál um það. Ef það er krafist sýknu af öllum aðilum þá er málið pínulítið tómt til flutnings. En Hæstiréttur getur alltaf ákveðið málflutning og beint einhverjum spurningum til málsaðila.“

En gæti Hæstiréttur komist að einhverri annarri niðurstöðu en að sýkna?

„Hann gæti væntanlega komist að þeirri niðurstöðu að skilyrði endurupptökunnar séu ekki fyrir hendi og þá mun gamli dómurinn einfaldlega standa. En ef þau eru fyrir hendi að mati dómsins þá verða kröfur saksóknarans og verjenda teknar til greina þannig að niðurstaðan í því yrði aldrei önnur en sýkna. Ég held að annað komi ekki til álita.“

Stefán segir að staða málsins nú sé nokkuð flókin en áhugaverð frá lagalegu sjónarhorni séð. „En þetta er auðvitað hrikaleg sorgarsaga, bæði fyrir þá sem hlut eiga að máli, réttarfarið og kannski réttarríkið líka.“

Davíð Þór Björgvinsson, saksóknari í Geirfinnsmálinu, skilaði öllu gögnum málsins …
Davíð Þór Björgvinsson, saksóknari í Geirfinnsmálinu, skilaði öllu gögnum málsins til Hæstaréttar nýverið. Gögnin fylla fleiri kassa. Hann hefur nú skilað greinargerð sinni og krefst sýknu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðeigandi að hafa málflutning

Allra næsta skref í málinu er það að nú fá verjendur fimmmenninganna frest til að skila sínum greinargerðum til Hæstaréttar. Líklegt er að sá frestur verði um fjórar vikur.

Davíð Már Björgvinsson, settur saksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, segir það ekki sitt að ákveða hvort að málflutningur muni fara fram í Hæstarétti. Hann sé hins vegar tilbúinn til þess. „Persónulega þætti mér það ekki óviðeigandi með tilliti til umfangs og stærð þessa máls. En þetta er ekki mín ákvörðun. það er Hæstiréttur sem verður að svara þessu sjálfur.“

En þó málflutnings gerist ekki þörf er eitt víst: Samkvæmt lögum þarf Hæstiréttur að kveða upp nýjan dóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert