„Þetta er bara annað módel“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er bara annað módel,“ segir Ragnar Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is spurður út í áform félagsins um að stofna leigufélag á sama tíma og það er þátttakandi í slíku félagi innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og hvort það sé ekki ávísin á óhagræði. Ragnar segir aðspurður málið ekkert tengjast hugmyndum um að VR segi skilið við ASÍ.

Þannig segir Ragnar að Bjarg íbúðafélag, sem rekið er af ASÍ, sé í raun félagslegt úrræði enda verið að leggja þar áherslu á mjög þröngan lágtekjuhóp. Segist hann efast um að til dæmis einstætt foreldri sem starfar sem grunnskólakennari með eitt eða tvö börn nái þeim tekjumörkum sem þar séu gerðar kröfur um. Meðaltekjur hjá félagsmönnum VR séu rétt tæplega 600 þúsund þannig að úrræðið höfði ekki til stórs hóps innan félagsins.

Ragnar segir hugmyndina að reisa 40 íbúða fjölbýlishús þar sem lögð verði áhersla á að byggja hagkvæmt en engu að síður að koma til móts við allar þarfir nútímamannsins í stað þess að reyna að hafa íbúðirnar sem minnstar eins og hjá Bjargi. Gróðasjónarmið ráði ekki för heldur fari allur hagnaður af rekstrinum umfram ávöxtunarkröfu í að lækka leiguverðið.

Ragnar segir ljóst að VR leysi ekki húsanæðisvanda höfuðborgarsvæðisins en vonandi verði þetta frumkvæði hins vegar til þess að sýna öðrum fram á að þetta módel virki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert