Hærra fargjald vegna útboðs Isavia

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi

Fargjald Flugrútunnar sem sinnir rútuferðum til og frá Keflavíkurflugvelli hækkar í 2.950 krónur um næstu mánaðarmót.

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir í samtali við Túrista.is að ástæðan fyrir þessu sé aukinn kostnaður við Keflavíkurflugvöll vegna útboðs Isavia á aðstöðu fyrir sætaferðir frá flugstöðinni.

Kynnisferðir áttu hæsta boðið í útboðinu og þurfa framvegis að greiða Isavia 41,2% af tekjum sínum af akstrinum.

Sem dæmi nemur miðasala í rútu sem keyrir frá flugstöðinni með  50 farþega um 147 þúsund krónum og þar af fær Isavia 60 þúsund krónur.

mbl.is/Ómar

Samhliða hækkuninni mun Flugrútan bjóða upp á sérstakt afsláttargjald fyrir þá sem ferðast með henni reglulega. Þjónustan við BSÍ verður einnig efld fyrir ferðamenn sem eru á leið þaðan á gististað. Jafnframt á enginn að þurfa bíða lengur en í 20 mínútur eftir því að rúturnar keyri frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Hópbílar buðu næsthæst í útboðinu og mun fyrirtækið greiða Isavia þriðjung af sinni veltu.

Fargjöld hjá Hópbílum/Airport Direct munu sömuleiðis hækka í 2.990 krónur.

Fram kemur á Túristi.is að tekjur Isavia af rútustæðunum fyrir framan komusalinn muni aukast upp í að minnsta kosti 290 milljónir króna á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert