Hlakkar til að bretta upp ermarnar

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, og Hildur Björnsdóttir, sem …
Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, og Hildur Björnsdóttir, sem skipar annað sætið á framboðslistanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef lengi haft áhuga á því að fara út í stjórnmálin og þykir borgarmálin sérstaklega spennandi. Ég hafði rætt þennan möguleika við mikið af vinum og félögum sem hafa starfað innan Sjálfstæðisflokksins, en ég taldi mig í raun ekki endilega eiga mikla möguleika þar sem ég á enga forsögu í flokknum. Síðan var haft samband við mig og spurt hvort ég hefði enn áhuga á þessu og ég staðfesti það. En ég átti kannski ekki endilega von á því að niðurstaðan yrði nákvæmlega þessi þó ég hafi auðvitað vonast eftir sæti ofarlega.“

Þetta segir Hildur Björnsdóttir, lögfræðingur og stjórnmálafræðingur, sem skipar annað sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Listinn var samþykktur á fundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík í gær. Hildur segir að þetta sé einfaldlega spennandi tækifæri sem hún hafi ákveðið að þiggja. Hún er þó ekki alger nýliði í stjórnmálum en hún var á háskólaárum sínum virk í stúdentapólitíkinni um árabil og var meðal annars formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

„Ég get með sanni sagt að þátttakan í stúdentapólitíkinni er það skemmtilegast sem ég hef nokkru sinni gert og ég hef í raun alltaf síðan verið að leita að þessum sama eldmóði sem ég hafði á þeim tíma og ég finn að hann er núna að kvikna aftur. Þannig að ég er mjög spennt,“ segir Hildur. Leikskóla- skólamálin eru henni meðal annars hugleikin en hún á sjálf þrjú börn sem eru annað hvort í grunnskóla eða á leikskóla og segist ekki hafa farið varhluta af því að sérstaklega daggæslumálin í Reykjavík séu ekki í of góðu ástandi.

Fólk minnst vinnuna vegna manneklunnar

„Ég veit ekki hversu marga daga ég hef þurft að vera heima með dætur mínar vegna þess að það hefur verið lokað á leikskólum vegna manneklu. Maður dáist í raun að starfsfólki leikskólanna að sinna sínu góða starfi við þær aðstæður sem því eru búnar af þeim sem hafa stjórnað borginni. Ég veit hreinlega um fólk, sérstaklega konur, sem hafa misst vinnuna vegna þessa ástands þar sem það hefur þurft að vera það mikið heima með börnin sín. Þannig að þetta er alveg risastórt mál fyrir fjölskyldufólk,“ segir hún.

„Við erum að sama skapi ekki að standa okkur nógu vel í skólamálunum. Við þurfum að skoða þau mál vel. Það er húsnæðisskortur í borginni, ungt fólk á ekki síst erfitt með að koma þaki yfir höfuðið. Flestar nýbyggingar eru eins konar lúxusíbúðir sem ungt fólk á engan kost á að kaupa. Síðan eru samgöngumálin auðvitað risastórt verkefni sem gera þarf stórátak í. Þar er einfaldlega um að ræða lífsgæði fólks,“ segir Hildur. Fólk sé lengi að komast á milli staða, almenningssamgöngukerfið sé ekki nógu gott og það sé einfaldlega ekki ásættanlegt að fólk sé klukkutíma lengur að komast í og úr vinnu en það ætti að þurfa.

„Ég er mjög spennt fyrir þessu nýja verkefni og það er af nógu að taka. Ég hlakka bara til að bretta upp ermarnar og taka til hendinni í borginni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert