Gáleysi skipstjóra olli strandi Skrúðs

Frá Viðey.
Frá Viðey. mbl.is/Brynjar Gauti

Gáleysi skipstjóra olli strandi Viðeyjarferjunnar Skrúðs í september í fyrra. Þetta kemur fram í áliti rannsóknarnefndar samgönguslysa. Þar segir einnig að skipstjórinn hafi ekki verið lögskráður á bátinn.

Lokaskýrsla vegna slyssins var afgreidd fyrr í vikunni.

Skrúður var á siglingu 15. september með farþega frá Viðey að Skarfabakka í Reykjavíkurhöfn.

Þegar verið var að losa landfestar í Viðey klemmdi hásetinn vísifingur vinstri handar milli tógsins og polla. Eftir að báturinn var farinn frá bryggju fór skipstjórinn að sinna  meiðslum hásetans.

Um kl. 23 þegar báturinn var farinn að nálgast Skarfabakka sigldi hann með stefnið upp í grjótgarðinn vestan við bryggjustæðið. Dráttarbáturinn Leynir dró Skrúð af strandstað.

Við rannsókn kom fram að hásetinn varð fyrir ónæði og truflun frá farþega við losun landfesta í Viðey með þeim afleiðingum að hann klemmdi sig.

Einnig kom fram að skipstjórinn setti á sjálfstýringu þegar stefnan var tekin á Skarfabakka og fór að sinna hásetanum.

Fram kom hjá skipstjóra að hann hafi verið kominn á handstýringu þegar báturinn nálgaðist grjótgarðinn við Skarfabakka.

Farþegar voru á stjórnpalli sem truflaði siglinguna og síðan björgunina. Stjórntæki bátsins voru í opnu rými sem farþegar höfðu greiðan aðgang að.

Skipstjórinn ákvað að rýma bátinn og láta þá farþega sem treystu sér fara í land upp á grjótgarðinn. Hræðsla skapaðist meðal farþega og kvörtuðu þeir undan skorti á upplýsingagjöf og stjórnun.

Farþegaskipið Gestur kom nokkru síðar á strandstað og tók þá farþega sem eftir voru um borð.

Skemmdir urðu á stefni og stjórnborðsskrúfu Skrúðs, auk þess sem leki kom að bátnum inn í stefnistank.

Einn farþeginn slóst utan í þil í sal niðri þegar báturinn strandaði og tognaði á hálsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert