Fólk deyr á biðlista inn á Vog

Biðlistar inn á sjúkrahúsið Vog eru lengri en nokkru sinni …
Biðlistar inn á sjúkrahúsið Vog eru lengri en nokkru sinni áður. Tæplega 600 manns bíða eftir að komast í meðferð. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

„Biðlisti inn á Vog er í eðli sínu mjög líkur biðlista inn á bráðamóttöku. Fólk deyr á þessum biðlista,“ skrifar Arnþór Jónsson, formaður framkvæmdastjórnar SÁÁ, í pistli sínum á heimasíðu samtakanna.

Sjúkrarúmum sem ætluð eru áfengis- og vímuefnasjúklingum til meðferðar hefur fækkað um 203 frá árinu 1985 og eru nú 62. „Enginn virðist skilja af hverju það var gert eða muna hver bað um niðurskurðinn. Samt var það gert vitandi vits,“ skrifar Arnþór.

Arnþór segir samning um sjúkrahúsið Vog vera svo naumt skammtaðan frá hendi ríkisins að SÁÁ hafi í raun afhent allan sinn hluta samningsins fyrir miðjan september ár hvert. Eftir það sé treyst á álfasölufólk og aðra velunnara samtakanna.

„Allur þessi niðurskurður er í hróplegri mótsögn við þjónustuþörfina. Áfengis- og vímuefnaneysla fer vaxandi og biðlistar inn á sjúkrahúsið Vog eru lengri en nokkru sinni áður,“ segir í pistli Arnþórs.

Meðalaldur þeirra sem leita sér meðferðar fer lækkandi og er 35 ár. Í dag bíða 5-600 manns eftir meðferð. Arnþór óskar eftir betri þjónustu. „Sjúkdómur fíknar einkennist af stjórnleysi. Hann er án efa hættulegasti sjúkdómur ungs fólks á Íslandi í dag. Sú staðreynd blasir við okkur í endurteknum hörmungarfréttum af ótímabærum dauða fjölda vímuefnasjúklinga. Það er kominn tími til að tengja. Hér vantar meiri og betri þjónustu. Það sjá það allir.“

Pistil Arnþórs í heild sinni má lesa hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert