Snýr að sérhæfðara sjúkrahúsi

Bjarni Benediktsson á landsfundi.
Bjarni Benediktsson á landsfundi. mbl.is/Eggert

Í stjórnmálaályktun sem samþykkt var við lok landsfundar Sjálfstæðisflokksins í dag kemur meðal annars fram að farið verði tafarlaust í staðarvalsgreiningu fyrir framtíðaruppbyggingu sjúkrahúsþjónustu.

Flokkurinn vill þó halda áframhaldandi uppbyggingu Landspítala og „lokið verði þeirri uppbyggingu á Landspítalalóð sem er komin á framkvæmdastig og tengist núverandi starfsemi“.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að ályktunin sneri ekki að fyrirhuguðu þjóðarsjúkrahúsi við Hringbraut heldur öðru og sérhæfðara sjúkrahúsi.

„Það er verið að segja að við þurfum að eiga eitt háskólasjúkrahús, eitt bráðasjúkrahús. Það er sjúkrahúsið sem við erum að byggja núna. Til lengri tíma þurfum við að huga að staðarvali fyrir aðra spítalastofnun, annað sjúkrahús, sem verði ef til vill eitthvað sérhæfðara,“ sagði Bjarni í fréttum Stöðvar 2.

Auk þess kom fram í ályktun landsfundar að mikilvægt væri að horfa til fjölbreyttra rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að auka aðgengi, þjónustu, skilvirkni og hagkvæmni með áherslu á skýrar gæðakröfur. Gera þurfi heilbrigðisstéttum kleift að stunda sjálfstæðan rekstur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert