Fær að sjá samræmd próf dóttur sinnar

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að Menntamálastofnun bæri …
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að Menntamálastofnun bæri að afhenda föður stúlku sem þreytti samræmd könnunarpróf árið 2016 aðgang að svörum hennar. mbl.is/Eyþór Árnason

Menntamálastofnun þarf að afhenda föður stúlku sem þreytti samræmd könnunarpróf í september 2016 aðgang að úrlausnum stúlkunnar í íslensku og stærðfræði ásamt fyrirgjöf fyrir hverja spurningu. Þetta kemur fram í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem var kveðinn upp í síðustu viku.

Menntamálastofnun neitaði að afhenda föður stúlkunnar próf og úrslausnir dóttur hans þar sem mikilvægt var að prófspurningarnar kæmu ekki fyrir augu almennings og hægt væri að nýta spurningarnar oftar en eitt ár í einu. Í rökstuðningi Menntamálastofnunar kemur fram að ríkir almannahagsmunir liggi að baki því að spurningarnar yrðu ekki birtar þar sem íslenska grunnskólakerfið lægi undir.

Var það annars vegar vegna þess að Menntamálastofnun hefur unnið að innleiðingu rafrænna prófa þar sem einstaklingsmiðuð próf eru endanlegt markmið. Slík próf byggja á stórum banka prófspurninga, í raun svo stórum að ekki er raunhæft að semja ný atriði fyrir hverja próflögn, segir í umsögn Menntamálastofnunar vegna málsins.

Hins vegar taldi Menntamálastofnun að með því að loka fyrir aðgang að prófspurningum gæfist stofnuninni kostur á að gefa mynd af breytingum og framvindu námsárangurs íslenskra barna milli ára. Hingað til hafi prófin gefið samanburð milli einstakra sveitarfélaga, landshluta eða skóla en ekki hvort nemendur standi sig betur eða verr en nemendur fyrri ára. 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál benti á það í niðurstöðu sinni að foreldrar gæti hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri, þeir beri ábyrgð á námi þeirra og beri að fylgjast með námsframvindu. Til þess að foreldrar geti rækt hlutverk sitt þurfi þeir að geta aflað upplýsinga um námsframvinduna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert