Féll úr stiga en fær engar bætur

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað ríkið af kröfu fyrrverandi nemanda Fjölbrautaskólans í Breiðholti sem féll þrjá metra niður úr stiga og lenti á malbiki við vinnu á kennslusvæði skólans við Hraunberg í Breiðholti.

Varanleg örorka hans vegna slyssins nemur 13%.

Hann var nemandi í kvöldskóla við húsasmíðadeild skólans þegar slysið varð í september árið 2014.

Annar nemandi var með honum að setja þakpappa á þak byggingar á kennslusvæðinu. Fleiri nemendur voru einnig að störfum þar.

Í kröfu frá verjanda mannsins kemur fram að aðbúnaður og verkstjórn við deildina hafi verið ófullnægjandi og starfsmenn skólans brugðist skyldum sínum samkvæmt lögum.

Vísað var til umsagnar Vinnueftirlitsins um að rekja megi orsök slyssins til þess að stiginn hafi ekki verið festur við þakbrún né aðrar ráðstafanir gerðar til að tryggja stöðugleika hans.

Maðurinn taldi sig ekki eiga neina sök á slysinu.

Stefndi sagði að orsakir slyssins verði ekki raktar til saknæmrar háttsemi starfsmanna skólans eða ófullnægjandi aðstæðna við húsasmíðadeild sem stefndi beri ábyrgð á.

Stefnandi beri sjálfur alla sök á slysinu.

„Þegar slysið varð hafi vinnupallar verið á báðum hliðum hússins sem unnið var við. Hafi nemendur, þar með talið stefnandi, fengið skýr fyrirmæli frá kennaranum Magnúsi Kristmannssyni um að nota pallana ásamt lágum tröppum við hlið þeirra til að fara upp á þak hússins og niður. Hafi sá stigi sem stefnandi féll úr ekki verið notaður í þessu skyni heldur við annan verkþátt í húsinu. Stiginn hafi alls ekki átt að vera við mæni hússins og hann ekki verið settur upp af kennaranum eða öðrum starfsmönnum skólans,“ segir í málsástæðum stefnda.

Úrskurður héraðsdóms var á þann veg að dómurinn telur að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að rekja megi líkamstjón hans til saknæmrar háttsemi starfsmanna Fjölbrautaskólans í Breiðholti eða ófullnægjandi aðstæðna sem stefndi beri ábyrgð á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert