Fjármálaáætlun ekki klár fyrir páska

Bjarni Benediktsson fjámálaráðherra á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina.
Bjarni Benediktsson fjámálaráðherra á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármálaáætlun verður ekki lögð fram á tilsettum tíma. Þetta kemur fram í bréfi frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til forseta þingsins í morgun en til stóð að fjármálaáætlunin yrði á dagskrá þingfundar á morgun. Síðasti þingfundur fyrir páska verður föstudaginn 23. mars og kemur þingið ekki saman að nýju fyrr en mánudaginn 9. apríl eftir páska.

Í lögum um opinber fjármál segir að leggja þurfi fjármálaáætlunina fram fyrir 1. apríl hvert ár og skal áætlunin gilda fyrir næstu fimm ár hið minnsta, svo sem um þróun skatta og gjalda, innihalda mat á efnahagshorfum næstu árin sem og skýra markmið í afkomu og efnahag hins opinbera í heild til næstu fimm ára.

Á þingfundi í morgun kom fram að fjármálaáætlunin yrði ekki tilbúin fyrr en eftir páska og gagnrýndu fjölmargir þingmenn stjórnarandstöðunnar Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og starfsmenn fjármálaráðuneytisins fyrir seinaganginn og sökuðu einhverjir ríkisstjórnina um lögbrot ef fram fer sem horfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert