Óskaði eftir liðsinni í máli Hauks

Katrín og Merkel á blaðamannafundi í dag.
Katrín og Merkel á blaðamannafundi í dag. AFP

„Hann var nú bara mjög gagnlegur og góður og skemmtilegur. Það er ljóst að það skiptir okkur Íslendinga mjög miklu að rækta samskipti við Þýskaland og Þjóðverja svo ég fagna því að hafa fengið þennan ágæta fund,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem fyrr í dag fundaði með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.

Í samtali við mbl.is segir Katrín að hún og Merkel hafi farið vítt yfir sviðið í samræðum sínum í dag. Meðal annars óskaði Katrín þess að íslenskir embættismenn mættu leita liðsinnis þýskra kollega sinna varðandi leitina að Hauki Hilmarssyni, sem sagður er að hafi fallið í árás tyrkneska hersins í Afrín-héraði í Sýrlandi.

„Við ræddum ástandið í Tyrklandi og í tengslum við það óskaði ég þess að okkar embættismenn mættu leita liðsinnis þýskra kollega sinna í því máli, í ljósi þess að þetta er ekki mál sem við erum vön að fást við á hverjum degi,“ segir Katrín.

Fóru yfir flóttamannaumræðuna í Þýskalandi

Leiðtogarnir ræddu einnig flóttamannamál og þróunarsamvinnu, sem Merkel hefur sett á oddinn í sinni pólitík.

„Hún fór yfir það hversu miklu það skipti fyrir velferð okkar á Vesturlöndum að tryggja einnig velferð annarra heimshluta einmitt í gegnum þróunarsamvinnu,“ segir Katrín, en þær ræddu einnig þann mótbyr sem Merkel hefur mætt innan Þýskalands vegna stefnu sinnar í flóttamannamálum.

„Við fórum yfir þau mál og umræðuna um þau mál í Þýskalandi,“ segir Katrín og bætir því við að Merkel sé búin að vera lengi að störfum í pólitík og hafi mikla þekkingu og greiningarhæfni þegar komi að stjórnmálum.

„Það eru auðvitað forréttindi að fá að ræða við slíkt fólk,“ segir Katrín.

Angela Merkel og Katrín Jakobsdóttir ganga hlið við hlið fyrir …
Angela Merkel og Katrín Jakobsdóttir ganga hlið við hlið fyrir utan kanslarahöllina í Berlín. AFP

Ræddu um útgöngu Bretlands úr ESB

Einnig ræddu þær Katrín og Merkel um stjórnmálaástandið í ríkjunum tveimur.

„Bæði hafði hún heilmikinn áhuga á að fræðast um íslenskt stjórnmálaástand, sem ég gerði mitt besta til að skýra og við fórum svo yfir stöðuna í Þýskalandi sem eru um margt óvenjuleg eftir langan aðdraganda að myndun ríkisstjórnar,“ segir Katrín.

Bretland er á leið út úr Evrópusambandinu og það bar á góma.

Merkel og Katrín á blaðamannafundi fyrir fund þeirra í dag.
Merkel og Katrín á blaðamannafundi fyrir fund þeirra í dag. AFP

„Ég lagði mikla áherslu á það að við myndum vilja bæði vinna ötullega að halda áfram að vera virk í EES-samningnum, en um leið að við myndum auðvitað áfram eiga góð samskipti við Bretland. Síðan ræddum við stöðuna innan Evrópu og stöðuna á alþjóðasviðinu, þannig að það var eiginlega allt undir á þessum ágæta fundi,“ segir Katrín.

Ítrekaði heimboð nemenda við Fjölbraut í Ármúla

Á blaðamannafundi áður en Katrín og Merkel gengu til fundar minnti sló forsætisráðherra á létta strengi og minnti kanslarann á boð nemenda við Fjölbrautaskólann í Ármúla um að koma til Íslands í heimsókn og tók Merkel vel í það að láta verða af Íslandsför.

„Hún mundi eftir þessum ágæta fundi þar sem hún hafði hitt þessa nemendur og við ræddum það og ég ítrekaði þetta boð – að hún væri mjög velkomin til Íslands. Hún spurði mig líka töluvert um íslenska landafræði og náttúru,“ segir Katrín, sem sagðist þakklát fyrir að hafa náð að rifja upp helstu staðreyndir um þau mál frá skólagöngu sinni.

Horfa má á blaðamannafund Katrínar og Merkel hér að neðan.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert