Eva segir áhugaleysi á Afrin algjört

Móðir Hauks segir hann eina Íslendinginn sem hafi tekið skýra …
Móðir Hauks segir hann eina Íslendinginn sem hafi tekið skýra afstöðu með Kúrdum. Ljósmynd/Aðsend

„Það versta er að vita ekki hvort ég á frekar að óska þess að sonur minn hafi komist af eða farist,“ segir Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar, sem sagður er hafa fallið í átökum við tyrkneska herinn í Afrin-héraði í Sýrlandi, í nýrri færslu á bloggsíðu sinni þar sem hún lýsir meðal annars ástandinu á svæðinu. Hún vandar íslenskum stjórnmálamönnum ekki kveðjurnar í færslunni og gagnrýnir þá fyrir að fordæma ekki opinberlega innrás Tyrkja í Afrin-hérað.

Einn Íslendingur hefur tekið skýra afstöðu með Kúrdum í Rojava. Sá maður er Haukur Hilmarsson. Ekki forsætisráðherra Íslands. Ekki utanríkisráðherra Íslands. Ekki formaður neins stjórnmálaflokks. Meira að segja Píratar eru sömu hryggleysingjarnir og Vinstri Græn.“

Eva hafði talið nánast útilokað að sonur hennar væri á lífi, en komst svo að því að upplýsingar um fall hans virtust hafa verið byggðar á getgátum. Hann gæti því mögulega verið í lífi og hugsanlega í haldi Tyrkja.

„Í fyrradag vonaði ég að hann væri ekki hjá Tyrkjum heldur hefði komist af og væri hjá Kúrdum. Líkurnar á því eru afskaplega litlar og ég segi ekki að ég hafi verið bjartsýn en möguleikinn var þó huggun. Eftir atburði gærdagsins er sá veiki möguleiki hreint ekki þægileg tilhugsun. Í gær féll fjöldi óbreyttra borgara í loftárásum Tyrkja og síðar gengu Jihadistar um göturnar og slátruðu fólki með sveðjum.“

Eva segir þá sem standa næst Hauki vera örvæntingafulla. „Við óttumst um afdrif hans og finnst óbærilegt að geta ekki farið á staðinn til að leita. En Haukur valdi þó að minnsta kosti sjálfur að stofna sér í hættu. Milljónir óbreyttra borgara í Rojava hafa ekkert val.“

Hún segir að þótt ættingjar og vinir Hauks sveiflist á milli ótta og sorgar sé vanlíðan þeirra smáræði í samanburði við kvalræði Kúrda sem hafa misst heimili sín og lifibrauð og eru sjálfir í nagandi óvissu um afdrif sinna nánustu, kannski stórslasaðir, vegna framgöngu Tyrkja. Hún hafi þó ekki séð einn einasta íslenska stjórnmálamann fordæma innrás Tyrka í Afrin opinberlega í krafti stöðu sinnar eða beita áhrifum sínum.

„Margir stjórnmálamenn hafa sent mér samúðarkveðju og mér skilst að nokkrir hafi mætt á samstöðufundinn með Afrín  þann 17. mars en það er allt og sumt. Utanríkisráðherra sagði sjálfur upp í opið geðið á mér að innrás Tyrkja í Afrín kæmi Nató ekkert við. Á sama tíma og hann sýnir algert áhugaleysi á ástandinu í Afrín er hann dag eftir dag í fjölmiðlum að tjá sig um meinta manndrápstilraun Rússa í Bretlandi sem hann getur ekki vitað neitt um,“ segir Eva og vísar þar til morðtilræðis á Sergei Skripal og dóttur hans Juliu á breskri grundu, en þeim var byrlað taugaeitur. Rússar eru grunaðir um að standa að baki tilræðinu.

Eva segist ekki vera að biðja fólk að fara til Rojava og berjast gegn Isis en henni finnst þögnin ærandi. „Ég efast ekki um að þið séuð upp til hópa gungur og aumingjar en það skýrir ekki þetta skeytingarleysi, þessa ærandi þögn. Ástæðan fyrir því að þið gerið ekkert róttækara en að rölta í miðbæinn og hlusta á ræður – ef þá einu sinni það – er einfaldlega sú að ykkur er sama.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert