Svindlsíminn hringdi í lögguna

Aðalreglan þegar tilkynning birtist á skjánum um ósvarað erlent númer …
Aðalreglan þegar tilkynning birtist á skjánum um ósvarað erlent númer er að hringja ekki til baka nema vita í hvern er verið að hringja.

Íslenskum símafyrirtækjum bárust um helgina tilkynningar um hrinu svindlsímtala. Fæstir verða varir við hringinguna, en sjá síðan á síma sínum merki um ósvarað símtal úr erlendu númeri, sem getur reynst kostnaðarsamt ef fólk hringir til baka.

„Þeir hringdu í mig, ég var með ósvarað símtal frá þeim,“ segir Þórir Ingvarsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Þessi svindlsímtöl eru ekkert keyrð áfram, nema af því að þau virka. Það eru alltaf einhverjir sem hringja til baka þegar þeir sjá að þeir eiga ósvarað símtal. Það mikilvægasta er því að hringja ekki til baka ef um erlent símanúmer er að ræða, nema maður viti í hvern maður er að hringja,“ segir hann.

Lokuðu á yfir 100 símanúmer

Guðmundur Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Símans, segir Símann hafa lokað fjölda númera vegna svindlsímtalanna. „Við lokuðum yfir 100 númerum yfir helgina. Núna eru enn þá einhver örfá númer að reyna að hringja og við vöktum þau. Það er lítið magn, en ef það verður mikið þá er lokað á númerin,“ segir Guðmundur og kveður þetta í stöðugri vöktun allan sólarhringinn.

„Þetta kemur alltaf í bylgjum og þessi bylgja er í rénun núna.“ Hann segir ekki marga hafa hringt til baka að þessu sinni, enda sé fólk orðið meðvitað um svindlsímtöl.

„Þetta hefur gerst oft áður, þannig að fólk er farið að læra á þetta.“

Ekki lögbrot að hringja í fólk

Þórir segir símtöl í langflestum tilvikum ganga þannig fyrir sig að tölvur hringja í símanúmer af handahófi. „Í langflestum tilvikum er kerfið sett upp þannig að það er ætlast til þess að þú hringir til baka. Þegar það er gert er um að ræða gjaldnúmer og þá getur mínútan verið kostnaðarsöm.“

Alltaf sé eitthvað um að slík símtöl séu tilkynnt til lögreglunnar. „Slíkum tilkynningum fer þó fækkandi, af því að fólk er farið að þekkja þetta og veit hvernig þetta er,“ segir hann og bætir við að ekki sé um lögbrot að ræða. „Það er ekki lögbrot að hringja í fólk. Þetta eru aðallega óþægindi og í raun er það val viðkomandi að hringja til baka. Þannig að þetta er erfitt við að eiga.“

Aðalreglan sé því að hringja ekki til baka í erlent númer, nema maður viti í hvern maður sé að hringja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert