Verkin rokseldust á góðu verði

Jóhann Ágúst Hansen á uppboði í Gallerí Fold.
Jóhann Ágúst Hansen á uppboði í Gallerí Fold. mbl.is/Kristinn Magnússon

Níu myndlistaverk sem boðin voru upp á uppboði Gallerí Foldar í kvöld seldust á milljón krónur og yfir. Jóhann Ágúst Hansen uppboðsstjóri finnur fyrir uppsveiflu í efnahag þjóðarinnar og segir áhugann mikinn.

Dýrasta verk kvöldsins var verk eftir Þorvald Skúlason en verkið seldist á 2,7 milljónir króna við hamarshögg. Heildarverð verksins er þó vel á fjórðu milljón eftir að tekið hefur verið tillit til höfundarréttargjalds og uppboðsgjalds. Yfirlit yfir verð og verkin sem seldust má sjá á uppboðsvef Gallerí Foldar.

Alls voru 95 myndlistaverk boðin upp í kvöld og seldust þau flest. „Einu verkin sem seldust ekki voru landslagsverk en abstraktin stóð sig vel líkt og við höfðum gert ráð fyrir,“ segir Jóhann Ágúst. Líkt og kom fram í frétt mbl.is fyrr í dag hefur uppboðum verið fækkað hjá Gallerí Fold til þess að betri verk fáist á hvert uppboð.

„Síðasta uppboð hjá okkur var í desember og það gekk ágætlega svona heilt yfir. Núna fékkst hærra verð og tilfinningin er að verðið hafi verið hærra núna,“ segir hann. Troðfullt var á uppboðinu og komust færri að í sæti en vildu að sögn Jóhanns en sætin voru 120 talsins.

„Meirihlutinn er fólk að kaupa verk á heimilið, einstaklingar,“ segir Jóhann Ágúst en inn á milli séu safnarar og kunnugleg andlit sem hafi reglulega keypt myndlist í gegnum árin. „Meirihlutinn er yfir 45 ára en það voru þó yngri andlit sem við sáum þarna líka. Við höfum verið að merkja aukningu hjá yngri kaupendum, sérstaklega eftir að við fórum af stað með krafti í vefuppboðin. En það eru fáir undir þrítugu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert