Handtekinn innan við 5 mínútum síðar

Sveinn Gestur Tryggvason í Héraðsdómi Reykjavíkur á síðasta ári.
Sveinn Gestur Tryggvason í Héraðsdómi Reykjavíkur á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Sveinn Gestur Tryggvason skuli sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í Landsrétti í máli ákæruvaldsins á hendur honum.

Kröfu Sveins um frávísun málsins, sem var byggð á því að gæsluvarðhaldstíminn hafi verið runninn út er krafa um framlengingu gæsluvarðhalds var kynnt honum, var hafnað.

Í niðurstöðu Landsréttar er fjallað um þegar Sveini Gesti var sleppt úr haldi í fangelsinu á Hólmsheiði vegna þess að gæsluvarðhaldsdómur yfir honum var runninn út en hann var skömmu síðar handtekinn fyrir utan fangelsið.

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði. mbl.is/Hari

Fram kemur að gæsluvarðhald yfir Sveini Gesti átti að renna út 12. mars klukkan 16.

Sóknaraðili kom fyrir héraðsdóm klukkan 15.45 sama dag og lagði fram kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald. Á sama tíma kom í dóminn verjandi Sveins.

Héraðsdómari bókaði í þingbók að dóminum hefðu borist upplýsingar frá fangelsinu á Hólmsheiði um að Sveinn hafi neitað að koma fyrir dóminn og sýnt mótþróa er færa átti hann þangað. Óskað var eftir stuttum fresti svo unnt væri að færa hann fyrir dóm og féllst héraðsdómari á þá kröfu.

„Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2017 lauk gæsluvarðhaldsvist varnaraðila 12. mars 2018 klukkan 16. Af gögnum málsins verður ráðið að hann var handtekinn innan við fimm mínútum síðar til þess að tryggja návist hans. Varnaraðili var í kjölfarið færður fyrir héraðsdóm og krafa um áframhaldandi gæsluvarðhald kynnt honum klukkan 17.01,“ segir í niðurstöðu Landsréttar.

Þar kemur fram að Sveinn Gestur sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í Landsrétti í málinu á hendur honum en þó ekki lengur en til föstudagsins 15. júní næstkomandi klukkan 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert