Gagnrýnir forystusveit Sjálfstæðisflokksins

Styrmir Gunnarsson segir ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn telji sig ekki eiga …
Styrmir Gunnarsson segir ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn telji sig ekki eiga neitt ósagt við þjóðina um ástæður hrunsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, fjallar um landsfund Sjálfstæðisflokksins sem fram fór um helgina á bloggsíðu sinni í dag. Hann segir tvennt ljóst að fundinum loknum.

Í fyrsta lagi það að Sjálfstæðisflokkurinn telji sig ekki eiga neitt ósagt við íslensku þjóðina um ástæður efnahagshrunsins, „nú þegar 10 ár verða liðin í haust frá þeim ósköpum.“

Í annan stað segir Styrmir að að Sjálfstæðisflokkurinn telji enga ástæðu til að „ræða í eigin ranni“ þá staðreynd að flokkurinn hafi tapað að minnsta kosti tíu prósentustigum af fylgi sínu – ef ekki meiru.

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina. mbl.is/Eggert

Þetta segir Styrmir að sé bersýnilega meðvituð ákvörðun forystusveitar nýrrar kynslóðar innan flokksins og um hana megi segja að hver sé sinnar gæfusmiður.

Afleiðingarnar blasa hins vegar við að mati Styrmis, en þær segir hann að séu verulega minnkandi áhrif flokksins á framvindu landsmála.

Á sunnudag tjáði Styrmir sig einnig um landsfundinn og lagði til að forysta flokksins tæki það til skoðunar að hafa allan fundinn í beinni útsendingu á netinu, þar sem fjölmiðlaumfjöllun um hann hefði verið lítil, einfaldlega af þeirri ástæðu að fjölmiðlafyrirtæki hefðu ekki efni á því að senda blaðamenn á yfirvinnukaupi til að fylgjast með fundum sem þessum.

Vefsíða Styrmis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert