Unnið að auknu öryggi á geðsviði

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, segir að tillögur um sjálfsvígsforvarnir væntanlegar á næstu vikum. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Sævari Sævarssyni, varaþingmanns Flokks fólksins, um öryggi sjúklinga á geðsviði Landspítalans. Svandís tekur fram að tillögur starshóps um málið feli í sér aðgerðir sem „eru byggðar á reynslu nágrannaþjóða Íslendinga af árangursríkum sjálfsvígsforvörnum.

Í svarinu kemur einnig fram að unnið er að því að útbúa matstæki til þess að greina áhættustig á geðdeildum ásamt því að greina þá þætti sem þarfnast úrbóta. Þá segir einnig í svari að „umhverfi getur haft mikil áhrif á vellíðan og öryggi allra sjúklinga. Umhverfi sjúkrahúsa þarf að taka mið af þeirri þjónustu sem þar er veitt.“

Guðmundur leitaði einnig svara um það hvort að ríkisstjórnin hyggist styrkja bráða- og móttökudeildir og fjölga legurýmum. Greint er frá því í svari ráðherra, að í desember 2017 hafi fjárveitingar til Landspítala vegna geðheilbrigðismála verið auknar  um 180 milljónir króna. Einnig er bent á að fleiri læknar hafa verið ráðnir til starfa og að stefnt sé að því að auka virkni á legudeildum, ásamt því að ný dagdeild hefur verið opnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert