Í farbanni vegna kókaíns í útvarpstæki

Landsréttur er með aðsetur í Kópavogi.
Landsréttur er með aðsetur í Kópavogi. mbl.is/Hanna

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður skuli sæta áframhaldandi farbanni, allt til 13. apríl, vegna gruns um að hafa átt aðild að flutningi fíkniefna til landsins frá Hollandi í desember í fyrra.

Úrskurði héraðsdóms var skotið til Landsréttar 16. mars.

Fram kom í úrskurði héraðsdóms að lögreglan hafi til rannsóknar innflutning á sterkum fíkniefnum hingað frá Hollandi.

Þann 6. desember hafi tollgæslan fundið talsvert magn af fíkniefnum í póstsendingu Póstsins frá Hollandi og hafi efnin verið falin í útvarpstæki.

Annar maður var skráður viðtakandi sendingarinnar en sendandi var hollenskur aðili. Lögreglan lagði hald á efnið og samkvæmt niðurstöðu tæknideildar lögreglu var um að ræða mikið magn kókaíns. 

Að fengnum úrskurði frá héraðsdómi var efnunum skipt út fyrir skaðlaus efni og komið var fyrir eftirfarar- og hlustarbúnaði í pakkanum.

Hinn 11. desember hafði maðurinn sem var skráður viðtakandi samband við Póstinn og svaraði tilkynningu um að pakkinn væri kominn til landsins. Óskaði hann eftir því að pakkinn yrði keyrður heim til sín.

Lögreglan fylgdist með pakkanum fara að heimili hans, ásamt því að hlusta á samskipti þeirra sem meðhöndluðu hann. Skömmu síðar fór lögreglan inn í íbúðina og kom að manninum ásamt öðrum manni og hinum kærða eiga við útvarpið.

Í kjölfarið hafi allir aðilar verið handteknir og færðir á lögreglustöð.

„Fram hefur komið við skýrslugjöf kærða hjá lögreglu og hjá verjanda hans áður fyrir dómi, að kærði eigi ekki heimili á Íslandi, en hann eigi sambýliskonu í Barcelona á Spáni og eigi þau von á barni. Kærði hefur mjög lítil tengsl við Ísland og einmitt vegna þeirra aðstæðna hans sem verjandi hefur lýst má fremur ætla að hann muni reyna að komast úr landi í því skyni að koma sér undan málsókn eða fullnustu refsingar ef til kæmi,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Refsing, ef sök er sönnuð, getur varðað fangelsi allt að sex árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert