Ók utan í lögreglubíl á flótta

mbl.is/Þórður

Um klukkan þrjú í nótt barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um að verið væri að reyna að brjótast inn í fyrirtæki á Stórhöfða. Er lögreglan kom á vettvang voru meintir þjófar í bifreið sem ekið var um Stórhöfða. Ökumanninum var gefið merki um að stöðva bílinn en þá var honum ekið áfram og utan í lögreglubíl sem á móti kom. 

 Bifreiðinni var svo ekið á móti rauðu ljósi yfir gatnamót við Höfðabakka og stöðvaði ökumaður ekki för sína ekki fyrr en í Breiðhöfða. 

Tveir voru handteknir við bifreiðina en einn reyndi að hlaupa á brott og var handtekinn við Bíldshöfða. Allir voru mennirnir vistaðir í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.

Fólkið, tveir karlmenn og ein kona, eru grunuð um innbrotstilraun, að fara ekki að fyrirmælum lögreglu, umferðaróhapp, akstur gegn rauðu ljósi, akstur undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna, brot á vopnalögum og mögulega fleiri brot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert