Persnesk vorhátíð í Ráðhúsinu

Nú fer fram Nowruz-vorhátíð í Ráðhúsi Reykjavíkur en hún er mikilvæg hjá þjóðarbrotum sem hafa persneskar rætur. 150 manns frá hinum ýmsu löndum taka þátt en margir þeirra eru flóttamenn og hælisleitendur. Hátíðin á sér 3000 ára gamlar rætur og börn jafnt sem fullorðnir hafa unnið að undirbúningnum á undanförnum dögum.

Eshan Ísaksson sem kemur frá Afganistan og Íran segir mestu máli skipta að safna fólkinu saman, vorið sé vissulega seinna hér á ferð en þaðan sem hann kemur. mbl.is hitti Eshan við undirbúningin enn hann kom hingað til lands fyrir tveimur árum og kann vel við sig.

Markmiðið með hátíðinni er að gefa Persum á Íslandi tækifæri til þess að koma saman og fagna og leggja áherslu á það sem þeir eiga sameiginlegt. Hátíðin stendur fram á kvöld og allir eru velkomnir. En Eshan segir mikilvægt að kynna persneska menningu fyrir Íslendingum.

„Það er okkur mikilvægt að fá þetta tækifæri til þess að kynna menningu okkar og sögu fyrir Íslendingum um leið og við nærum uppruna okkar og rætur, og endurgjalda þá gestrisni og vinsemd sem við höfum upplifað á Íslandi.“

Á hátíðinni verður boðið upp á menningartengd skemmtiatriði og mat frá löndum á borð við Afganistan, Kúrdistan, Írak, Tyrklandi og Íran.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert