Varla hægt að finna lægri taxta

Ljósmæður hafa verið samningslausar frá því í ágúst í fyrra …
Ljósmæður hafa verið samningslausar frá því í ágúst í fyrra og hefur hvorki gengið né rekið í kjaraviðræðunum á þeim tíma. mbl.is/Eggert

Boðað var til samstöðufundar með kjarabaráttu ljósmæðra fyrir utan húsakynni ríkissáttasemjara nú síðdegis, en fundur hófst þá í kjaradeilu Ljósmæðrafélags Íslands og samninganefndar ríkisins. „Við erum að vona að þeir komi viljugir til leiks til að leysa deiluna,“ segir Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, í samtali við mbl.is sem á sæti í samninganefndinni.

Ljósmæður hafa verið samningslausar frá því í ágúst í fyrra og hefur hvorki gengið né rekið í kjaraviðræðunum á þeim tíma. „Síðan erum við búnar að vera í kjaraviðræðum, ef undan er skilinn sá tími þegar verið var að kjósa nýja ríkisstjórn,“ segir Áslaug og kveður mikið bera á milli í kjaradeilunni.

Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra var einnig afhentur í dag undirskriftalisti með nöfnum nær 6.000 manns sem hafa skrifað undir stuðningsyfirlýsingu við kjarabaráttu ljósmæðra. „Við erum með 5.800 undirskriftir sem söfnuðust á mjög stuttum tíma, þannig að okkur finnst við svo sannarlega njóta stuðnings,“ segir Áslaug. „Við finnum fyrir mjög miklum stuðningi og erum eiginlega alveg gapandi hissa hvað þetta hefur gengið vel. Við erum þó með góðan málstað, því það er svo fáránlegt hvernig er í pottinn búið.“

Efnt var til samstöðufundar með ljósmæðrum við húsakynni ríkissáttasemjara, en …
Efnt var til samstöðufundar með ljósmæðrum við húsakynni ríkissáttasemjara, en lítið hefur þokast í kjaraviðræðum þeirra. mbl.is/Eggert

Fullkomlega galið að lækka í launum við útskrift

Laun ljósmæðra hafi ekki fylgt almennri launaþróun í landinu auk þess sem þær lækka í launum eftir að hafa starfað sem hjúkrunarfræðingar við að ljúka ljósmæðranámi, sem er framhaldsnám eftir grunnnám í hjúkrunarfræði. „Það er náttúrulega fullkomlega galið að við skulum lækka í launum við útskrift og þetta þarf að leiðrétta. Við lítum þess vegna ekki á þetta sem eiginlega launahækkun, heldur sem leiðréttingu.“

Ljósmæður, líkt og aðrir þeir hjúkrunarfræðingar sem sæki sér framhaldsmenntun, eigi að vera betur launaðir en þeir sem bara hafa lokið grunnmenntun.

„Með þessu er ég ekki að segja að hjúkrunarfræðingar séu oflaunaðir, þetta bara undirstrikar hve lág laun ljósmæðra eru,“ segir Áslaug.

Hún segir samninga einnig vera lausa hjá sjálfstætt starfandi ljósmæðrum sem sinna heimafæðingum og heimaþjónustu, en að þeir semji við Sjúkratryggingar Íslands. „Það er ekki hægt að finna nokkurn staðar lægri taxta að ég held, nema mögulega hjá unglingum sem eru að vinna á veitingahúsum.“

Sjálfstætt starfandi ljósmæður fái greiddar innan við 5.000 kr. á tímann. „Það er mjög illa launað starf og það er ekki tekið með í reikninginn að þetta er vinna sem er unnin á öllum tímum sólarhrings og alla daga ársins,“ segir Áslaug og kveður oft gleymast í umræðunni að þessar ljósmæður fari líka í vitjanir á aðfangadag og jafnvel aðfangadagskvöld ef vandi kemur upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert