Vilja skýrslu um „hulduaðila“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hópur þingmanna hefur óskað eftir skýrslu frá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um aðkomu og hlutdeild hulduaðila í kosningum til Alþingis.

Óskað er eftir því að þeirri spurningu verði meðal ananrs svarað hvort mögulegt sé „að greina aðkomu og hlutdeild hulduaðila í síðustu tvennum kosningum til Alþingis og hvort og þá hvernig komið verði í veg fyrir nafnlausar kosningaauglýsingar og áróður.“

Einnig vilja skýrslubeiðendur vita hvort stjórnmálaflokkar, sem buðu fram í þingkosningunum 2016, „hafi gert grein fyrir framlögum til kosningabaráttu sinnar í formi auglýsingaherferða á vef- og samfélagsmiðlum sem kostaðar voru af þriðja aðila.“

Sömuleiðis óska þeir eftir mati á verðmæti þeirra framlaga sem falla undir þá skilgreiningu í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda sem ekki hafi verið gerð grein fyrir í ársreikningum stjórnmálaflokkanna.

Þá er óskað eftir því að ráðherra „taki afstöðu til þess hvernig komið verði í veg fyrir nafnlausar kosningaauglýsingar og áróður innlendra aðila og jafnframt hvernig bregðast megi við hættunni á inngripi erlendra aðila í kosningum á Íslandi.“

Fram kemur í greinargerð að markmið skýrslubeiðninnar sé „að styrkja lýðræðið á Íslandi með því að auka gegnsæi í kosningabaráttu og stuðla að því að öllum verði ljóst hverjir standi að baki kosningaáróðri, hverju nafni sem hann nefnist.“ Með hulduaðilum sé átt við aðila „sem framleiða og dreifa auglýsingum í þágu eða gegn tilteknum stjórnmálaflokkum eða einstaklingum í skjóli nafnleyndar.“

Fyrsti flutningsmaður er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, en meðflutningsmenn koma auk Viðreisnar frá Samfylkingunni og Pírötum og Vinstrihreyfingunni - grænu framboði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert