VÍS þarf að greiða 5,7 milljónir í bætur

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Ófeigur

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Vátryggingafélag Íslands greiði karlmanni rúmar 5,7 milljónir króna með vöxtum í bætur.

Málið snýst um slys sem maðurinn varð fyrir þegar hann klemmdi fingur á milli timburstafla og lyftarabrettis.

Deilt var um hvort áverkinn sem maðurinn hlaut við slysið hefði leitt til psoriasis-liðagigtar eða hvort gigtin væri af völdum psoriasis-sjúkdóms sem hann var með.

Í málinu lá fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna þar sem fram kom að ekkert benti til þess að maðurinn hefði verið með psoriasis-liðagigt áður en hann klemmdi sig og að langflestir sem væru með psoriasis í húð fengju ekki liðagigt.

Með ólíkindum væri að gigtin hefði komið fram hjá manninum fyrir tilviljun á sama stað og áverkinn aðeins nokkrum dögum eftir að hann klemmdi sig. Talið var sannað að áverkinn hefði komið psoriasis-liðagigtarferlinu af stað eins og lagt var til grundvallar í matsgerðinni.

Hæstiréttur dæmdi VÍS til að greiða eina milljón króna í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert