Hjólasöfnun hleypt af stokkunum

Ljósmynd/Barnaheill

Hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi var hleypt af stokkunum um hádegisbil í dag í Sorpu á Sævarhöfða. Friðrik Dór Jónsson tónlistarmaður afhenti fyrstu hjólin í söfnunina og hvatti með því aðra til að láta gott af sér leiða með þeim hætti og koma hjólum sem ekki eru í notkun til þeirra sem hafa not fyrir þau.

Þau Elsa Margrét Þórðardóttir og Bjartur Bóas Hinriksson, bæði á tíunda ári, tóku við fyrstu hjólunum en söfnunin stendur yfir til 10. maí og hefjast úthlutanir um miðjan apríl. Fram kemur í fréttatilkynningu að hjólin verði gefin börnum og unglingum sem ekki hafa tök á því að kaupa sér reiðhjól. Sækja megi um hjól hjá félagsþjónustu sveitarfélaga.

„Allar endurvinnslustöðvar Sorpu á höfuðborgarsvæðinu taka við hjólum. Sjálfboðaliðar munu gera hjólin upp undir styrkri stjórn sérfræðinga í reiðhjólaviðgerðum áður en þau verða afhent nýjum eigendum,“ segir ennfremur en þeir sem vilja aðstoða við hjólaviðgerðir eru beðnir að hafa samband við Aðalstein Gunnarsson í síma 895 5030, eða iogt@iogt.is.

„Verkefnið hefur mjög breiða samfélagslega skírskotun þar sem það eflir félagslega þátttöku barna og nú í ár er verkefnið samtvinnað hjólaverkefni Rauða krossins og Hjólafærni þar sem hælisleitendum gefst kostur á að gera upp sín eigin hjól og taka í leiðinni þátt í viðgerðum fyrir Hjólasöfnun Barnaheilla,“ segir áfram en þetta er í sjöunda sinn sem hjólasöfnunin fer fram í samstarfi við Æskuna barnahreyfingu IOGT, Sorpu, Rauða kross Íslands, Hjólafærni og ýmsa aðra velunnara. Fasteignafélagið Reitir lánar húsnæði undir verkstæði.

Þá segir að hátt í 1500 börn hafi notið góðs af hjólasöfnun Barnaheilla frá því henni var fyrst hrundið af stað árið 2012. Hægt sé að fylgjast með verkefninu á Facebook-síðu söfnunarinnar og einnig er hægt að skrá sig þar til þátttöku í sjálfboðaliðastarf fyrir hjólaviðgerðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert