Hjúkrunarfræðingar styðja ljósmæður

Ljósmæður héldu samstöðufund fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara í vikunni.
Ljósmæður héldu samstöðufund fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara í vikunni. mbl.is/Eggert

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) lýsir yfir fullum stuðningi við kjarabaráttu ljósmæðra og þær kröfur sem stéttin hefur sett fram um bætt starfs- og launakjör. Fíh hvetur ríkisstjórn og samninganefnd ríkisins til að ganga til samninga við ljósmæður hið fyrsta.

Þetta kemur fram í tilkynninguf frá félaginu.

„Mjög stórt hlutfall ljósmæðra er einnig hjúkrunarfræðingar. Það að hjúkrunarfræðingar sem gerast ljósmæður lækki í launum við það að bæta við sig námi er fáheyrt, með öllu ótækt og þarf að lagfæra.  Jafnframt er óviðunandi að ljósmæður þurfi að semja  við fjársveltar heilbrigðisstofnanir um laun og starfskjör og þarf að breyta því ferli,“ segir í tilkynningunni.

„Laun, starfskjör og starfsumhverfi hefðbundinna kvennastétta innan íslenskrar heilbrigðisþjónustu eru mun lakari en annarra starfsstétta sem starfa hjá hinu opinbera. Erfiðlega hefur gengið að lagfæra þetta og hefur það leitt til viðvarandi manneklu innan heilbrigðisþjónustunnar. Mikilvægt er að laun, starfskjör og vinnuumhverfi séu bætt og heilbrigðiskerfið þannig gert samkeppnishæft um starfskrafta heilbrigðisstarfsmanna. Þannig má tryggja að þekking og kunnátta heilbrigðisstarfsmanna nýtist skjólstæðingum íslenska heilbrigðiskerfisins og stuðli að eflingu þess,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert