Hvassviðri og snjókoma

Veðurfarslegum gæðum verður misskipt á landinu í dag eins og …
Veðurfarslegum gæðum verður misskipt á landinu í dag eins og sjá má á spákortinu klukkan 14. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Spáð er allhvössum vindi og snjókomu á Vestfjörðum fram eftir degi. Einnig mun snjóa á Vesturlandi og Norðvesturlandi, en þar er búist við hægari vindi.

Gul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum og í henni segir orðrétt: Norðan 13-18 m/s með snjókomu. Líkur á erfiðum akstursskilyrðum vegna takmarkaðs skyggnis og að jafnvel verði  þæfingur á vegum, sér í lagi fjallvegum á svæðinu. Dregur úr vindi og úrkomuákefð síðdegis.

Færð á vegum er þessi samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar klukkan 7:

Hálka er á Hellisheiði og í Þrengslum og allvíða á Suðurlandi.  Á Vesturlandi er greiðfært í nágrenni Borgarness en  snjóþekja á vegum og éljagangur eða snjókoma á Snæfellsnesi og í Dölum. Þæfingsfærð er á Holtavörðuheiði.

Það er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum á Vestfjörðum og víða él og skafrenningur. Á Norðurlandi vestra er víða snjóþekja en þæfingsfærð er í Miðfirði. Norðaustanlands er víðast greiðfært en þó er hálka á Mývatnsheiði og Hólasandi og hálkublettir á stöku stað.

Það eru hálkublettir á  Vopnafjarðarheiði og Fjarðarheiði og hálka á Breiðdalsheiði en annars er greiðfært á Austurlandi. Eins er að mestu greiðfært með suðausturströndinni en þó er hálka í Eldhrauni.

Lægð stýrir veðrinu

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar á vef stofnunarinnar segir að lægð sé nú stödd yfir landinu og hún muni stýra veðrinu í dag. Útlit er fyrir hæga suðlæga og breytilega átt í dag og stöku slydduél en bjartviðri austast. 

„En hvassara er nú þegar á Vestfjörðum og mun einnig bæta í vind vestast á landinu í dag, allhvasst verður á Snæfellsnesi upp úr hádegi og strekkingur á Reykjanesi í kvöld með úrkomu en áfram mun hægari vindur annars staðar.

Hiti 0 til 4 stig að deginum en næturfrost, jafnvel talsvert fyrir norðan.
Norðvestan kaldi á morgun og úrkomuminna en síðan norðaustlægari áttir með dálitlum slydduéljum eða élum, einkum norðaustantil en úrkomulítið sunnanlands á sunnudag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðingsins.

Hiti í kringum frostmark

Veðurspá næstu daga er þessi:

Á laugardag:
Norðvestlæg átt 8-13 m/s en hægari austanlands. Dálítil él eða slydduél, en þurrt og bjart sunnan- og suðaustanlands. Hiti um og undir frostmarki. 

Á sunnudag:
Austlæg átt 5-13 og svolítil él eða slydduél, einkum á Austurlandi en léttskýjað suðvestantil. Hiti kringum frostmark. 

Á mánudag:
Suðaustan 13-20 m/s og rigning eða slydda, en heldur hægari og úrkomulítið norðaustanlands. Hiti 0 til 5 stig en vægt frost í innsveitum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert