„Katastrófa“ ef verktakalæknar hætta

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Svokallaðir verktakalæknar frá greitt á bilinu 150 til 175 þúsund krónur á dag fyrir störf sín hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Fer það eftir menntun læknisins hversu há laun hann fær.

Þetta segir Hallgrímur Kjartansson, framkvæmdastjóri lækninga hjá stofnuninni.

Um er að ræða 105 þúsund krónur fyrir dagvinnu á heilsugæslu frá klukkan 8 til 16 og 70 þúsund krónur að auki fyrir vakt fyrir héraðið þangað til 8 morguninn eftir. Þetta er því sólarhringsvinna. 

Fram kom í frétt RÚV í gær að verktakalæknar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands fái á bilinu 130 til 220 þúsund krónur á dag.

Þrjá lækna vantar 

Hallgrímur segir fjóra verktaka sinna fjórum til fimm stöðugildum á meðan læknar sem eru launþegar hjá stofnuninni vera fjóra talsins. Heilbrigðisstofnunin er undirmönnuð að sögn Hallgríms og vantar þrjá lækna í fastar stöður. Hann segir ástandið viðkvæmt og lítið megi út af bregða.

Kennir kjarasamningi um 

Erfitt er að fá lækna til starfa á Vestfjörðum og því hefur stofnunin reitt sig á lækna í verktöku. Hallgrímur kennir kjarasamningi Læknafélags Íslands við fjármálaráðuneytið árið 2015 um stöðuna sem er uppi. Grunnvaktalaun ungra lækna hafi verið lækkuð um að minnsta kosti 30 prósent og það hafi þeim líkað mjög illa. Eftir það hafi þeir frekar viljað vera í verktöku heldur en að starfa sem launþegar.

Spurður út í upphæðina sem læknar hafa fengið á Austurlandi, allt að 220 þúsund á dag, kveðst Hallgrímur ekki kannast við svo háar tölur hjá sér. Besti kosturinn varðandi mönnun lækna hjá stofnuninni væri ef þeir störfuðu sem launþegar en næstbesti kosturinn væri að gera fasta samninga við lækna þannig að þeir sömu kæmu aftur og aftur til starfa.

„Ég óttast að ef það verður gert óhagstætt fyrir þetta fólk að gerast verktakar þá aukist vandinn okkar,“ segir Hallgrímur og nefnir að flestir verktakarnir búi í Reykjavík. „Þeir eru að vinna aðra vinnu í grunninn en nota frítíma sinn til að koma til okkar. Ef þeir hætta að nenna því þá erum við í vondum málum.“

Standa höllum fæti í samkeppni

Hallgrímur nefnir einnig að fyrir nokkrum árum hafi verið ákveðið að efla heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Það hafi tekist vel og læknar farið aftur inn á heilsugæslustöðvarnar þar. „En það þurrkar upp markaðinn fyrir okkur af því að þetta er takmörkuð auðlind. Við stöndum höllum fæti í samkeppninni um læknanna,“ greinir hann frá og nefnir að flestir séu þeir uppaldir í Reykjavík og eigi þar fjölskyldu og vini.

„Ég óttast að ef verktaka verður minna fýsileg fyrir þetta fólk þá bitni það strax á okkur. Við erum rosalega háð þeim og ef ástandið myndi snöggbreytast og þeir hættu, þá yrði „katastrófa“ á allri landsbyggðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert