„Nú er þolinmæði okkar þrotin“

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara.
Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara. Ljósmynd/Aðsend

Þungt hljóð er í forystu samninganefndar Félags framhaldsskólakennara eftir fund með ríkissáttasemjara í morgun. Á mánudag, 26. mars, mun nefndin fara yfir stöðuna í yfirstandandi kjarasamningaviðræðum og fara yfir næstu skref. Eftir páska verða einnig trúnaðarmenn framhaldsskólanna kallaðir saman.

Í samningaviðræðunum er tekist á um fullar efndir á kjarasamningi aðila frá 2014, sem snýr einkum að nýju vinnumati, og breytingar á fyrirkomulagi náms í framhaldsskólum. 

„Nú er þolinmæði okkar þrotin og það er alveg ljóst að við munum ekki ganga frá þessu samningaborði fyrr en við höfum fengið fullar efndir á fyrri samningi. Hafa ber í huga að við erum með úrskurð Félagsdóms til staðfestingar því sem er umsamið og óefnt.“ Þetta er haft eftir Guðríði Arnardóttur, formanni Félags framhaldsskólakennara, í tilkynningu.

Hún bendir jafnframt á að á sama tíma og menntamálaráðherra fullyrðir að framlög til framhaldsskólanna hafi aukist um 1.290 milljónir strandi kjarasamningur félagsmanna á vanefndum ráðuneytisins, meðal annars vegna fjárskorts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert