Sakar bílstjóra um ofbeldi

Farþegi ferðaþjónustu fatlaðra segir bílstjóra hafa kýlt sig.
Farþegi ferðaþjónustu fatlaðra segir bílstjóra hafa kýlt sig. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Farþegi ferðaþjónustu fatlaðra, Lilja Ragnhildur Oddsdóttir, segir bílstjóra ferðaþjónustu fatlaðra hafa beitt hana ofbeldi er hún var farþegi í bifreið hans.

Þetta kemur fram í frétt DV um málið.

Lilja segir manninn hafa kýlt sig í bakið og síðan í magann. Hún er með klofinn hrygg og notast við hjólastól. Nýtir hún sér ferðaþjónustu fatlaðra til þess að komast á milli staða.

Að sögn Lilju átti atvikið sér stað á miðvikudaginn síðasta. Hún segist hafa runnið til meðan á bílferðinni stóð og hafi bent bílstjóra á það. Hann hafi þá brugðist illa við og sakað hana um að hafa reynt að losa sig sjálf.

Frásögnum ber ekki saman

Erlendur Pálsson, sviðsstjóri farþegaþjónustu Strætó, staðfestir í samtali við mbl.is að málið hafi komið á borð til þeirra. Samkvæmt verklagsreglum sé maðurinn ekki að störfum á meðan málið er til skoðunar.

Hann segist hafa verið í ágætu sambandi við Lilju sjálfur. „Ég hvatti hana til þess að hafa samband við lögreglu svo við fáum allt á hreint sem hefur gerst,“ segir Erlendur. Frásögnum Lilju og bílstjórans ber ekki saman og þurfi staðfestingu frá óháðum aðila.

Í frétt DV kemur fram að Lilja hafi fengið áverkavottorð vegna málsins en Strætó hefur ekki fengið það afhent.

„Á meðan er bílstjórinn ekki í akstri og svo tökum við ákvörðun þegar þar að kemur.“

Munu skoða að taka upp myndavélakerfi

Aðspurður segir Erlendur ekkert myndavélakerfi í bifreiðum. „Við erum með 80 bíla og það er gríðarlegt gagnamagn frá hverjum bíl sem við þyrftum að geyma og það var ekki framkvæmanlegt þegar útboðið var gert á sínum tíma.“

Stendur til að endurskoða það?

„Það verður alveg örugglega skoðað í nýju útboði, alveg pottþétt. En þá þurfum við um leið að skoða persónuverndarmál og fleira,“ segir Erlendur.

Þetta er ekki í fyrsta skipti á árinu sem greint er frá atviki sem tengist ferðaþjónustu fatlaðra. Fyrr á árinu sagði mbl.is frá máli stúlku, sem á við þroskahömlun að stríða og var skilin eftir ein að kvöldi til fyr­ir utan skól­ann sinn, þegar keyra átti hana á ball í fé­lags­miðstöðinni sem er í öðru hverfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert