Vilja breyta ferðavenjum borgarbúa

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík. mbl.is/Hanna

„Fyrirferðamesta samgönguverkefnið á árinu hefur verið borgarlína,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, á málþinginu „Léttum á umferðinni“ sem fram fór í Ráðhúsinu í morgun. Þar var fjallað um samgöngur í Reykjavík.

„Af hverju erum við svona mikið að tala um samgöngumál?“ spurði borgarstjóri og svaraði sjálfum sér í næstu setningu. Hann benti á að talið er að íbúum á höfuðborgarsvæðinu muni fjölga um 70 þúsund til ársins 2040 og með óbreyttu ástandi muni fólk eyða meiri tíma pirrað í umferðinni en það gerir núna.

„Síðast þegar okkur fjölgaði svona mikið fjölgaði bílum meira, byggðin dreifðist gríðarlega og fyrir vikið hefur tíminn sem við eyðum í umferðinni aukist mjög mikið,“ sagði Dagur.

Hugmynd að borgarlínuvagni og stoppistöð.
Hugmynd að borgarlínuvagni og stoppistöð. Mynd/SSH

Dagur sagði að vilji borgarstjórnar væri til að breyta ferðavenjum og benti á kostnaðartölur en 80 milljarða þarf vegna borgarlínu fram til ársins 2030. „Ég spái því að komandi kynslóðum muni þykja við hafa sýnt of litla róttækni, þó að við séum mest skömmuð fyrir það.“

Hann sagðist ekki hafa áhyggjur af ríkisstjórnarskiptum enda væri talað um borgarlínu í stjórnarsáttmála og verkefnið væri samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga.

„Helvítis skíthæll“

„Hvað á að gera fyrir heimilislausa?“ öskrar skyndilega reiður maður sem gengur framhjá Tjarnarsalnum í Ráðhúsinu á borgarstjóra. „Helvítis skíthæll,“ bætir maðurinn við. Dagur kveðst vera tilbúinn að ræða þau málefni síðar, heldur áfram að ræða borgarlínu og maðurinn gekk burt.

Hrafnkell Á. Proppé.
Hrafnkell Á. Proppé. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hrafnkell Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sagði markmiðið vera að fólksfjölgun verði mætt án þess að álag á stofnvegakerfið aukist.

„Borgarlína er ekki síður skipulagsmál sem snýr að því að móta borgina inn í framtíðina,“ sagði Hrafnkell.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert