Læknar þurfi að endurskoða sínar ávísanavenjur

mbl.is/Sverrir

Draga verður úr ávísunum tauga- og geðlyfja til að sporna við andlátum vegna ofskömmtunar lyfja á Íslandi. Margir læknar sem ávísa lyfjum eins og fentanyl, morfíni, metylfenidati, tramadóli, Parkódín forte og oxýkódoni þurfa að endurskoða sínar ávísanavenjur.

Þetta kemur fram í grein á vef Embættis landlæknis, þar sem fjallað er um umræðu sem hefur hefur verið um andlát vegna ofskömmtunar lyfja á Íslandi og í Bandaríkjunum. Bent er á að umræðan hafi að mestu tengst ópíóíðum. Í Bandaríkjunum hafi ástandinu verið líkt við faraldur vegna fjölda þeirra sem deyja vegna ópíóíða og fjölda þeirra sem eiga við alvarlegan fíknivanda að stríða.

Í greininni, sem er m.a. skrifuð af lækni og lyfjafræðingi, segir að umfang vandans hér á landi sé ekki eins mikill og í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir það sé hann talsverður. 

„Á Íslandi er það einkennandi hjá þeim einstaklingum sem deyja vegna lyfjaeitrana að í flestum tilfellum finnast fleiri en eitt efni í þeim látnu. Í þeim andlátum sem lyfjateymi embættisins hefur haft til skoðunar er gróflega hægt að skipta einstaklingum í tvo hópa eftir aldri. Það er annars vegar fólk á aldrinum 20 til 40 ára sem hafa tekið ópíóíða eða örvandi lyf í bland við ólögleg efni (t.d. kannabis og MDMA), hinn hópurinn sem er 40 til 80 ára sem hefur tekið inn þunglyndislyf, róandi lyf eða svefnlyf og oft með áfengi. Meðalaldur þeirra sem létust árið 2017 og voru til skoðunar hjá lyfjateymi embættisins var 48,6 ár.

Helmingur lyfjatengdra andláta ársins 2017 varð á síðasta ársfjórðungi samkvæmt bráðabirgðatölum úr dánarmeinaskrá. Það sem af er janúar 2018 eru 8 andlát til skoðunar hjá lyfjateymi embættisins sem bendir til að vandinn hér á landi er ekki að minnka,“ segir í greininni.

mbl.is/Eggert

Þá kemur fram, að ávísanir tauga- og geðlyfja hafi aukist um 130% frá 1995 til 2015 á Íslandi, á meðan aukning sé á bilinu 42-76 % hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Árið 2015 hafi notkun tauga- og geðlyfja verið 30% meiri hér á landi en hjá næstu Norðurlandaþjóð sem er Svíþjóð. Margt bendi því til að margir eigi við vanda að stríða vegna misnotkunar á lyfjum sem þeir fái ávísað sjálfir en einnig einstaklingar sem fá lyfin eftir öðrum leiðum.

„Eitt af því sem talið er vera megin ástæða umfangs vandans í Bandaríkjunum er hefð fyrir miklu magni ávísaðra lyfja sem hefur hjá mörgum verið gátt yfir í meiri fíknivanda. Það sama gildir fyrir Ísland, að draga verður úr ávísunum tauga- og geðlyfja til að sporna við vandanum og margir læknar sem ávísa lyfjum eins og fentanyl, morfíni, metylfenidati, tramadóli, Parkódín forte og oxýkódoni þurfa að endurskoða sínar ávísanavenjur. Embætti landlæknis gaf nýlega út leiðbeiningar um góða starfshætti lækna við ávísun lyfja sem taka mið af nýjum áherslum í ávísunum ávanabindandi lyfja,“ segir í greininni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert