Andrésar Andar-leikarnir í 43. sinn

Mikil blíða var á Andrésar Andar-leikunum, fjölskylduhátíð skíðamanna, í dag …
Mikil blíða var á Andrésar Andar-leikunum, fjölskylduhátíð skíðamanna, í dag í Hliðarfjalli við Akureyri. Leikarnir standa fram á laugardag. mbl.is/Þorgeir

Andrésar Andar-leikarnir eru haldnir í 43. sinn og taka 860 keppendur þátt. Þeir eru á aldrinum 4-15 ára. Leikarnir standa fram á laugardag. Talið er allt að 2.500-3.000 manns sæki leikana sem haldnir eru af Skíðafélagi Akureyrar í Hlíðarfjalli.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skíðafélagi Akureyrar.

Í ár er 4 ára börnum í fyrsta sinn boðið að taka þátt í leikunum og verða þau í leikjabraut þar sem allt snýst um að vera með og hafa gaman.

Þátttakendur eru frá 16 félögum á landinu ásamt gestum frá Noregi. Met hefur verið sett í fjölda keppenda sem taka þátt í skíðagöngu, en 126 börn taka þátt í þeirri grein.

Krakkarnir voru hressir í brekkunni í Hlíðarfjalli í dag.
Krakkarnir voru hressir í brekkunni í Hlíðarfjalli í dag. mbl.is/Þorgeir

Mótshaldarar búast við miklu fjöri og eru aðstæður í Hlíðarfjalli taldar góðar þrátt fyrir hlýindi undanfarna daga. Í morgun var 10 stiga hiti og blankalogn í Hlíðarfjalli.

Leikarnir voru settir í Íþróttahöllinni á Akureyri í gærkvöldi að lokinni skrúðgöngu allra þátttakenda frá íþróttasvæði KA. Keppt er í dag, á morgun og á laugardag og verða verðlaunaafhendingar í lok hvers keppnisdags.

Þrátt fyrir hlýindi voru aðstæður góðar að sögn mótshaldara.
Þrátt fyrir hlýindi voru aðstæður góðar að sögn mótshaldara. mbl.is/Þorgeir



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert