Strokufangar hafa alltaf náðst aftur

Engum íslenskum fanga hefur tekist að strjúka án þess að komast á ný undir manna hendur. „Oftast tekur það skamman tíma,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri.

Strok úr fangelsum hér á landi er raunar fátítt. Samkvæmt tölum sem Hafdís Guðmundsdóttir hjá Fangelsismálastofnun tók saman fyrir Morgunblaðið er aðeins um fjögur tilvik um strok að ræða úr lokuðum fangelsum hér á landi á áratugnum 2007 til 2017 og tvö úr opnum á sama tíma. Um tvö tilvik um strok er að ræða á þessu ári, flótta Sindra Þórs Stefánssonar úr opna fangelsinu á Sogni í Ölfusi í vikunni og Mikaels Más Pálssonar frá áfangaheimilinu Vernd snemma í þessum mánuði.

Ef skoðaðar eru tölur um fangaflótta fyrir önnur norræn lönd kemur í ljós að árið 2016 er Ísland í þriðja sæti hvað flótta varðar úr opnum fangelsum miðað við hverja 100 þúsund fangadaga. Þetta er þó undantekning miðað við það sem vanalegt er og aðeins er um að ræða tvö atvik. Finnland er í efsta sæti það ár og Danmörk í öðru, Noregur er í fjórða sæti og Svíþjóð í fimmta. Í Finnlandi og Danmörku struku 55 úr opnum fangelsum árið 2016, 49 í Noregi og 13 í Danmörku. Þegar tölur fyrir önnur ár áratugarins eru skoðaðar sker Ísland sig úr. Enginn flýr þá úr opnu fangelsi hér á landi.

Mun minna er um flótta úr lokuðum fangelsum en opnum í öllum löndunum. Ef aftur er miðað við árið 2016 var um ekkert strok að ræða hér á landi og Svíþjóð úr lokuðu fangelsi, en 4 tilvik í Finnlandi og eitt í Danmörku og Noregi. Strok úr lokuðum fangelsum er að jafnaði sjaldgæft í þessum löndum, en einstök ár skera sig þó úr. Þannig struku 17 í Danmörku árið 2007 og 11 árið 2014, 13 í Finnlandi árið 2008 og 16 í Svíþjóð sama ár. Árið 2009 struku tveir úr lokuðu fangelsi hér á landi.

Af eftirminnilegu tilvikum um að fangi hafi strokið hér á landi má nefna flótta Matthíasar Mána Erlingssonar frá Litla-Hrauni í desember 2012. Hann fannst viku seinna í sumarbústað í Árnesi og var þá vopnaður riffli, hnífum og öxi. Árið 2004 strauk Annþór Kristján Karlsson úr fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu með því að brjóta glugga. Hann fannst sama dag í felum hjá félaga sínum í Mosfellsbæ. Ef horft er lengra aftur í tímann má nefna strok Donalds M. Feeney og Jóns Gests Ólafssonar frá Litla-Hrauni í ágúst 1993. Þeir náðust á flugvellinum í Eyjum og höfðu þá tekið flugvél á leigu sem þeir ætluðu með til Færeyja.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert