Tuttugu börn fengu ferðastyrk

Ljósmynd/Icelandair

Tuttugu börnum og fjölskyldum þeirra, samanlagt um eitt hundrað manns, var afhentur ferðastyrkur úr sjóðnum Vildarbörn Icelandair í dag en alls hafa 625 fjölskyldur notið stuðnings frá sjóðnum frá stofnun hans fyrir 15 árum. Fram kemur í fréttatilkynningu að útthlutunin í dag hafi verið sú þrítugasta í röðinni. 

Starfsemi Vildarbarna Icelandair byggir á hugmyndum og starfi Peggy Helgason, eiginkonu Sigurðar Helgasonar, sem lengi var forstjóri Flugleiða og stjórnarformaður Icelandair Group. Markmið sjóðsins er að gefa langveikum börnum, foreldrum þeirra og systkinum, tækifæri til þess að fara í draumaferð sem þau ættu annars ekki kost á. Börnin fengu einnig bíómiða frá Sambíóunum og Flugfreyjukór Icelandair skemmti viðstöddum með söng.

„Sjóðurinn Vildarbörn er fjármagnaður með beinu fjárframlagi Icelandair, frjálsum framlögum félaga í Saga Club Icelandair sem geta gefið af Vildarpunktum sínum, með söfnun myntar um borð í flugvélum Icelandair, sölu á Vildarenglinum um borð í vélum Icelandair og söfnunarbaukum á Keflavíkurflugvelli og söluskrifstofum Icelandair. Einnig koma til frjáls framlög og viðburðir,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert