Vegabréf Sindra Þórs afturkallað í gær

Vegabréf Sindra Þórs Stefánssonar var afturkallað í gær.
Vegabréf Sindra Þórs Stefánssonar var afturkallað í gær. Ljósmynd/Lögreglan

Vegabréf strokufangans Sindra Þórs Stefánssonar hefur verið afturkallað af íslenskum yfirvöldum og er því ekki lengur í gildi. Það var gert í gær, að sögn Ólafs Helga Kjartanssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum.

Ekki er þó vitað hvort Sindri Þór var yfirhöfuð með vegabréfið á sér er hann hélt af landi brott að morgni þriðjudags, en hann þarf gilt vegabréf ef hann ætlar sér að yfirgefa Schengen-svæðið.

„Ef hann er með það með sér og hann framvísar því, þá kemur hann fram á válista. Ef hann er ekki með vegabréf, sem er eina skilríkið sem er tekið gilt erlendis af íslenskum skilríkjum, þá getur hann verið í vandræðum,“ segir Ólafur Helgi í samtali við mbl.is.

Æskilegt ef leigubílstjórinn gæfi sig fram

„Við erum að leita að honum með öllum tiltækum ráðum,“ bætir Ólafur Helgi við, en samkvæmt hans upplýsingum hefur leigubílstjórinn sem skutlaði Sindra Þór á Keflavíkurflugvöll á silfurlitaðri Skoda-bifreið ekki enn komið fram.

„Síðast þegar ég vissi núna um hádegisbilið var ekki búið að finna hann, hann hafði ekki gefið sig fram.“

Kemur til greina að lýsa eftir honum opinberlega?

„Það er eitthvað sem við skoðum bara í rólegheitunum. Það væri mjög æskilegt ef leigubílstjórinn sem ók honum gæfi sig fram við lögreglu,“ segir Ólafur Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert