Víðavangshlaup ÍR fer fram að venju

Frá Víðavangshlaupi ÍR í fyrra.
Frá Víðavangshlaupi ÍR í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðavangshlaup ÍR fer fram í dag sumardaginn fyrsta og munu rúmlega 500 þátttakendur taka á rás um miðborg Reykjavíkur. Hlaupið er jafnfram Íslandsmeistaramót í 5 km götuhlaupi að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Hlaupaleiðin er að mestu leyti sú sama og á síðasta ári og verða götur lokaðar á meðan á hlaupinu stendur. 

Hlaupið hefst í Tryggvagötu við Pósthússtræti klukkan 12:00. Skemmtiskokkið er ræst kl. 12:10 í Lækjargötunni fyrir framan MR.

Hlaupið verður upp Hverfisgötu og Barónsstíg og þar beygt niður Laugaveginn. Hlaupið verður síðan niður Laugaveg og Bankastræti að Lækjargötu og þar er beygt til vinstri suður Lækjargötu, Fríkirkjuveg og Sóleyjargötu inn á Gömlu Hringbrautina þar sem tekinn verður snúningur og hlaupið til baka norður Sóleyjargötuna, beygt vestur Skothúsveg að Tjarnargötu sem hlaupin verður framhjá Ráðhúsinu að Kirkjustræti. Hlaupið verður síðan eftir Kirkjustræti meðfram Austurvelli, Alþingishúsinu og Dómkirkjunni og beygt til vinstri norður Pósthússtræti. Markið verður í Pósthússtræti (við Hitt Húsið). 

Búast má við truflun á umferð og því þurfa hlauparar, bílstjórar og aðrir vegfarendur að gæta varúðar. Í einhverjum tilvikum verða götur með öllu lokaðar. Takmarkanir á umferð verða frá klukkan 11:00 – 14:00, einkum þó á bilinu 12:00 – 13:00. Vegfarendur eru beðnir um að sýna hlaupurum tillitssemi og fara varlega. Úrslit í íslandsmeistaramótinu verða send strax að loknu hlaupi, ef óskað er eftir að þau berist tilteknum aðilum þá vinsamlegast upplýsið þar um.

Nánari upplýsingar um hlaupið

Kort/ÍR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert