Fjölskyldufaðir á flótta

Sindri Þór Stefánsson hefur verið á flótta síðan á þriðjudag.
Sindri Þór Stefánsson hefur verið á flótta síðan á þriðjudag.

„Hann verður að gefa sig fram. Annars stendur það sem hefur verið ákveðið nú þegar,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, um strokufangann Sindra Þór Stefánsson sem strauk úr fangelsinu á Sogni aðfaranótt þriðjudags. Hann komst með flugi til Svíþjóðar morguninn eftir, áður en nokkur hafði gert sér grein fyrir því að hann var horfinn úr herbergi sínu. Talið er að hann hafi komist út um glugga.

Alþjóðleg handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur Sindra og vegabréf hans hefur verið ógilt. Framvísi hann því einhver staðar kemur hann fram á válista. Ólafur Helgi segir lögreglu ekki ætla að hvika frá þessu og getur Sindri því ekki gert sér neinar vonir um að sleppa við handtöku erlendis hafi lögregla hendur í hári hans þar. Það besta sem hann geti gert í stöðunni sé því að gefa sig fram á næstu lögreglustöð, hvar sem hann er staddur.

Sindri hef­ur setið í gæslu­v­arðhaldi síðan 2. fe­brú­ar síðastliðinn vegna gruns um aðild að stór­felld­um þjófnaði á tölvu­búnaði úr gagna­veri. Alls var um 600 tölv­um stolið og talið er að verðmæti þeirra nemi um 200 millj­ón­um króna. Er um að ræða stærsta þjófnaðarmál Íslandssögunnar.

Vill ekki vera handtekinn í öðru landi

Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra, sagði í samtali við RÚV fyrr í dag að hann vildi síst af öllu verða handtekinn í öðru landi þar sem framsalsferlið væri mjög þungt og tæki langan tíma. Sagði hann aðila vera „að vinna saman“ og átti þar við lögreglu og Sindra, með hann sem milligöngumann. Ólafur Helgi segir það hins vegar ekki rétt. Enginn samvinna sé í gangi. Slíkt hefði verið hægt alveg þangað til yfirlýsingin kom, en það sé ekki í boði lengur.

Ef Sindri ákveður að gefa sig fram þá fer að sögn Ólafs Helga af stað ákveðið ferli sem miðar að því að koma honum til Íslands. Hann segir hins vegar of snemmt að velta því fyrir sér.

Í yfirlýsingu sem Sindri sendi Fréttablaðinu segist hann ekki hafa búist við að alþjóðleg handtökuskipun yrði gefin út á hendur honum og hann stimplaður strokufangi, enda taldi hann sig frjálsan ferða sinna.

Hann hafi verið leidd­ur fyr­ir dóm­ara síðastliðinn þriðju­dag, dag­inn sem gæsluvarðhaldsúr­sk­urður­inn féll úr gildi, en dóm­ari hafi tekið sér sól­ar­hringsfrest til að ákveða hvort varðhaldið yrði framlengt. Sindri seg­ist í kjöl­farið hafa verið upp­lýst­ur um að í raun væri hann frjáls ferða sinna, en að hann yrði hand­tek­inn ef hann yf­ir­gæfi fang­elsið án skýr­inga.

Bar fyrir sig geðrænan vanda í varðhaldi

Í sömu yfirlýsingu segist Sindri geta verið á flótta eins lengi og hann vilji en hann hafi ekki áhuga á því. Hann vilji takast á við málið á Íslandi og ætli sér því að koma heim fljótlega.

Það má líka spyrja sig að því hve mikið úthald maður eins og Sindri hefur til að vera í felum og á flótta, en hann er fjölskyldumaður; kvæntur og á þrjú ung börn. Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Sindra kemur hins vegar fram að hann hafi nýlega selt búslóð sína og verið að flytja úr landi þegar hann var handtekinn. Taldi lögregla að hann myndi reyna að komast úr landi eða reyna að koma sér undan málsókn eða fullnustu refsingar yrði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Í greinargerð með kröfu lögreglu um áframhaldandi gæsluvarðhald kemur einnig fram að Sindri hafi ekki verið samvinnuþýður við rannsókn málsins og hafi rannsóknin af þeim sökum tekið lengri tíma en ella. Þá taldi lögregla einsýnt að hann myndi ná takmarki brotsins, hagnast á því og halda áfram brotum sætti hann ekki varðhaldi.

Líkur eru á því að Sindri hafi reynt að spila á kerfið með margvíslegum hætti, meðal annars á fangelsismálayfirvöld, en samkvæmt heimildum mbl.is bar hann fyrir geðrænan vanda á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi. Mögulegt er að það hafi ráðið úrslitum þegar ákvörðun var tekin um að hann skyldi vistaður í opnu fangelsi á Sogni. Sindri sat fyrstu tvo mánuðina í gæsluvarðhaldi í fang­els­inu á Hólms­heiði en var flutt­ur á Sogn tíu dögum áður en hann strauk. Hann sætti sí­brota­gæslu vegna fyrri brota, sem tengj­ast meðal ann­ars kanna­bis­rækt­un.

Leigubílstjórinn gaf sig loks fram

Ólafur Helgi segir yfirlýsingu Sindra ekki hafa nein áhrif á aðgerðir lögreglu vegna flótta hans. Lögregla haldi áfram að leita hans með aðstoð erlendra lögregluyfirvalda, en grunur leikur á því að hann sé staddur á Spáni. Þó liggja þó ekki fyrir óyggjandi sannanir þess eðlis.

Korta­færsl­ur Sindra geta varpað nán­ara ljósi á það hvar hann er niður­kom­inn, en dóms­úrsk­urð þarf til þess að viðskipta­bank­ar veiti slík­ar upp­lýs­ing­ar. Ólafur Helgi segir það vera í skoðun hvort óskað verði eftir slíkum dómsúrskurði.

Leigubílstjóri sem keyrði Sindra út á flugvöll á þriðjudagsmorgun gaf sig loks fram í dag, en lögregla hafði leitað hans. Hann gaf skýrslu en er ekki grunaður um neitt saknæmt. Vitnisburður hans varpaði hins vegar ekki frekara ljósi á það hvar Sindri er niðurkominn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert