Mæla með miðlægri skrá um sykursýki

Áætlað er að einstaklingum með sykursýki hafi fjölgað um rúm …
Áætlað er að einstaklingum með sykursýki hafi fjölgað um rúm 30% á tíu ára tímabili. Getty Images/Zoonar RF

Miðlæg skrá um sykursýki á Íslandi og aukin áhersla á forvarnir og eftirfylgni eru meðal þeirra tillagna sem starfshópur um viðbrögð við vaxandi nýgengi sykursýki leggur til. Hópurinn mælir hins vegar ekki með almennri skimun fyrir sykursýki.

Starfshópurinn skilaði nýlega skýrslu sinni um málið til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og að því er fram kemur í frétt á vef stjórnarráðsins fjallar skýrslan m.a. um faraldsfræði sykursýki, afleiðingar sjúkdómsins, um skráningu upplýsinga um sykursýki í gagnagrunna og kosti og galla slíkrar skráningar. Einnig er fjallað um skimun fyrir sykursýki 2 og hvaða skilyrði verði að vera til staðar til að slík skimun sé réttlætanleg, sem og hvað hafi verið gert erlendis í þessum efnum.

Áætlað er að einstaklingum með sykursýki hafi fjölgað um rúm 30% á tíu ára tímabili. Kemur fram í skýrslunni að þeir hafi verið um 333 milljónum árið 2005 og 435 milljónir árið 2015, en talið er að á milli 9-10% fullorðinna einstaklinga í Evrópu séu með sykursýki.

„Hér á landi skortir rannsóknir á faraldsfræði sykursýki en vísað er til úrtaksrannsóknar sem byggð var á nokkrum hóprannsóknum Hjartaverndar á árunum 1967 – 2007 sem benti til þess að á tímabilinu hefði algengi sykursýki tvöfaldast hjá körlum en fjölgað um 50% hjá konum. Að mati starfshópsins eru engin augljós rök fyrir öðru en að sú fjölgun sykursýkistilfella sem spáð hefur verið erlendis muni einnig eiga sér stað hér á landi,“ að því er segir í frétt um skýrsluna.

Þá segir í niðurstöðum starfshópsins að sykursýki sé alvarleg vá sem geti leikið Íslendinga grátt. Mikilvægt sé og tímabært að meta stöðuna og skipuleggja innviði til framtíðar.

Mælir starfshópurinn með að sett verði saman miðlæg skrá um sykursýki á Íslandi sem vistuð verði hjá Landlæknisembættinu. Einnig verði komið á fót virkri ritstjórn klínískra leiðbeininga um sykursýki sem starfi innan Embættis landlæknis.

Þá er það samdóma álit starfshópsins að mæla ekki með almennri skimun fyrir sykursýki, heldur áframhaldandi vinnu að heilsueflingu og forvörnum sem Landlæknisembættið verði látið leiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert