Nýr íbúðakjarni afhentur velferðarsviði

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ásamt Margeiri Þór Haukssyni sem verður …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ásamt Margeiri Þór Haukssyni sem verður fyrsti íbúinn í nýjum búsetukjarna við Kambavað. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Nýr íbúðakjarni í Kambavaði var formlega afhentur velferðarsviði Reykjavíkurborgar í dag en kjarninn er sérhannaður fyrir einstaklinga með þroskahömlun og skyldar raskanir.

Í Kambavaði eru sex íbúðir, sérhannaðar fyrir þarfir íbúanna. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að þjónustan sé einstaklingsmiðuð og sveigjanleg með það að markmiði að styðja íbúa til þess að eiga sjálfstætt og innihaldsríkt líf á sínum eigin forsendum til samræmis við stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum. Íbúðirnar eru rúmgóðar, með sérpalli en góðum sameiginlegum garði.

Rekstur íbúðakjarnans í Kambavaði er samstarfsverkefni Félagsbústaða og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar þar sem Félagsbústaðir sjá um fasteignina en velferðarsvið um þjónustu við íbúana.

Starfsmenn í Kambavaði verða um tuttugu en starfsemi og þjónusta hússins er mönnuð allan sólarhringinn alla daga ársins.

Félagsbústaðir sáu um byggingu íbúðakjarnans en verkfræðingar, arkitektar og sérfræðingar velferðarsviðs í málefnum fatlaðs fólks unnu saman að hönnuninni með þarfir íbúanna í huga. Flotgólf verktakar byggðu íbúðakjarnann en framkvæmdir hófust í febrúar árið 2017.

Frétt mbl.is: Skóflustunga tekin að íbúðakjörnum fyrir fatlaða

Með áframhaldandi samstarfi Félagsbústaða og velferðarsviðs verður fljótlega opnaður fullbúinn íbúðakjarni við Austurbrún og síðar í sumar í Einholti.

Þá er í undirbúningi uppbygging á þremur nýjum íbúðakjörnum sem verða við Árland og Stjörnugróf í Fossvogi og við Rökkvatjörn í Grafarholti. Stefnt er að því að búið verði að byggja a.m.k. hundrað íbúðir sérstaklega fyrir fatlað fólk fyrir árslok 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert