Lögreglumaður fær tvær milljónir

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Ófeigur

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að íslenska ríkið greiði rannsóknarlögreglumanni á höfuðborgarsvæðinu rúmar tvær milljónir króna með vöxtum.

Maðurinn var skipaður lögreglufulltrúi hjá embætti sérstaks saksóknara í september 2011 og gegndi þeirri stöðu þar til hann hóf störf sem rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í október 2014.

Í kjölfarið reis ágreiningur um hvort maðurinn hefði verið leystur frá embætti sínu hjá sérstökum saksóknara eða hvort hann hefði verið fluttur í annað embætti í skilningi 36. gr. laga nr. 70/1996 og ætti þar með rétt á að fá greiddan þann launamismun sem eftir var af skipunartíma hans í fyrra embættinu.

Maðurinn krafðist greiðslu fjárhæðar sem svaraði til launamismunarins á milli embættanna á tímabilinu frá því að hann tók við hinni nýju stöðu og þar til embætti sérstaks saksóknara var lagt niður í janúar 2016, auk þriggja mánaða biðlauna.

Í héraði var krafa hans tekin til greina.

Í dómi sínum vísaði Hæstiréttur til tveggja bréfa innanríkisráðuneytisins til mannsins sem lágu fyrir í gögnum málsins.

Taldi rétturinn að af þeim yrði ráðið að upphaflega hafi verið miðað við að staða hans hjá sérstökum saksóknara yrði lögð niður en síðar verið fallið frá því og hann þess í stað fluttur í umrædda stöðu hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Hefði hann því átt rétt á að fá greiddan þann launamismun sem eftir var af skipunartíma hans í fyrra embættinu auk biðlauna. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, var dæmt til að greiða stefnanda 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert