Með fjölda höggáverka á líkamanum

mbl.is/Eggert

Karlmaður á sjötugsaldri sem lést í uppsveitum Árnessýslu í lok mars var með fjölda höggáverka víðs vegar um líkamann, að því er kom fram í bráðabirgðaniðurstöðu krufningar á líki mannsins.

Bróðir mannsins situr í gæsluvarðhaldi til 7. maí, en hann er grunaður um að hafa orðið bróður sínum að bana á heimili sínu 31. mars. Landsréttur staðfesti áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum 13. apríl. Að mati lögreglu telst sterkur rökstuddur grunur um að maðurinn hafi gerst sekur um að hafa ráðið bróður sínum bana.

Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum kemur m.a. fram, að bráðabirgðaniðurstaða krufningar sýni fram á að hinn látni hafi verið með fjölda höggáverka víðs vegar um líkamann. Staðsetning, alvarleiki og form áverkanna bendi eindregið til þess að þeir hafi hlotist af völdum árásar.

Ennfremur segir, að maðurinn hafi verið með alvarlega höfuðáverka. Þeir séu þess eðlis að þeir samræmist ekki falláverkum heldur séu sterkar líkur á að þeir hafi hlotist af ítrekuðum hnefahöggum, spörkum/stappi eða höggum með einhvers konar áhaldi. Þá hafi verið bólga og áverkar víðs vegar um andlit hins látna sem bendi til þess að hann hafi verið sleginn ítrekað í andlit. Enn fremur hafi verið verulegir áverkar á hægri síðu hins látna. 

Að mati lögreglustjórans á Suðurlandi er bróðirinn, sem er nú í gæsluvarðhaldi, undir sterkum rökstuddum grun um að hafa síðla kvölds föstudaginn 30. mars eða aðfaranótt laugardagsins 31. mars, veist með ofbeldi að bróður sínum og veitt honum alvarlega áverka með þeim afleiðingum að hann lést í kjölfarið. Ætlað brot mannsins kunna að varða allt að ævilöngu fangelsi.

Fram hef­ur komið, að maður­inn hringdi í lög­reglu klukk­an 8.58 að morgni og til­kynnti að bróðir hans væri lát­inn. Lýsti hann í sím­tal­inu því hvernig þeir bræður hefðu lent í átök­um kvöldið áður eft­ir að hafa setið að drykkju á heim­il­inu. Minni hans af at­b­urðum væri óljóst en hinn látni hefði orðið brjálaður, þeir tek­ist á, en svo hefði rjátl­ast af hinum látna. 

Þegar lög­regla kom á vett­vang hefði hinn grunaði verið blóðugur á höfði og hægri hendi. Áverk­ar hefðu verið á höfði hans. Hinn látni lá á gólfi þvotta­húss og stór bogalaga skurður var á vinstra gagn­auga hans, efri vör var bólg­in og tölu­vert blóð á and­liti hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert