Nýtt samstarf um gerð leikins efnis

Norrænu útvarpsstjórarnir.
Norrænu útvarpsstjórarnir. Ljósmynd/Aðsend

Útvarpsstjórar norrænu almannaþjónustumiðlanna fimm kynntu fyrir skömmu „Nordic12“, nýtt samstarf um framleiðslu leikins efnis.

Með samningnum verður hægt að auka bæði magn og gæði norræns leikins efnis fyrir sjónvarp og streymiþjónustu, að því er kemur fram í tilkynningu frá RÚV.

Vegna samningsins geta notendur á komandi ári nálgast tólf nýjar leiknar þáttaraðir framleiddar af sjónvarpsstöðvum í almannaþjónustu. Þær verða einnig aðgengilegar notendum mun lengur en áður.

Samningurinn var kynntur í tónleikahúsi DR, danska ríkissjónvarpsins.

Frá athöfninni í Danmörku.
Frá athöfninni í Danmörku. Ljósmynd/Aðsend

Þegar þáttaraðirnar tólf verða tilbúnar munu þær á næsta ári standa til boða gegnum streymiþjónustu ríkisfjölmiðlanna, margar þeirra verða einnig sendar út í gegnum hefðbundið línulegt sjónvarp. Fyrir íslenska áhorfendur þýðir þetta í raun að á komandi ári geta þeir nálgast tólf nýjar leiknar þáttaraðir frá norrænum fjölmiðlum í almannaþjónustu hjá RÚV, en þar mun hver þáttaröð vera aðgengileg í allt að 12 mánuði. 

Meðal norrænna þáttaraða sem RÚV hefur verið meðframleiðandi að í gegnum Nordvision og sýnt við góðar viðtökur eru Vegur drottins eða Herrens veje frá DR, Gullkálfar eða Mammon frá NRK og Lövanderfjölskyldan frá SVT. Meðal nýrra þáttaraða sem væntanlegar eru til sýninga á RÚV og spilara RÚV í gegnum Nordic 12 samstarfið eru m.a. Liberty frá DR, Hjemmebanen frá NRK, Bind Donna frá YLE og De dagar som blommorna blommar frá SVT.

Sjónvarpsmyndin Mannasiðir, sem frumsýnd var á RÚV um páskana og fékk gott áhorf og vakti mikla athygli og umtal, er framlag RÚV til Nordic 12 samstarfsins tímabilið 2018/2019.

Ljósmynd/Aðsend

„Á tímum þar sem ofgnótt er af erlendu afþreyingarefni í gegnum erlendar efnisveitur er nauðsynlegra en nokkru sinni að almannaþjónusturnar tryggi aðgengi að sögum úr okkar nærumhverfi. Verkefni sem segja okkar sögur á okkar tungumálum. Sögur sem við getum speglað okkur í. Til að mæta þessu höfum við hjá RÚV verið að auka framleiðslu á íslensku leiknu efni eins og vinir okkar hjá hinum stöðvunum hafa verið að gera á sínum heimamörkuðum,“ segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri í tilkynningunni.

„Að undanförnu höfum við einnig aukið framboð á norrænu gæðaefni en dregið mjög úr framboði af erlendu afþreyingarefni. Við teljum að norrænt efni sé einfaldlega besta sjónvarpsefni sem í boði er fyrir okkar áhorfendur og finnum fyrir áhuga og vilja almennings til að sjá enn meira af því. Með þessu samstarfi erum við að þétta raðirnar enn frekar. Við viljum tryggja að okkar áhorfendur hafi áfram og í auknu mæli aðgang að gæðaefni frá Norðurlöndum – og það gerum við með að bindast böndum um að framleiða meira og í meira samstarfi en áður.“ 

Frá athöfninni í Danmörku.
Frá athöfninni í Danmörku. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert