Kennarar í ljósmóðurfræði harma ástandið

Ljósmæður og stuðningsfólk á Austurvelli.
Ljósmæður og stuðningsfólk á Austurvelli. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Kennarar í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands harma stöðuna sem er uppi vegna kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins og standa þétt að baki ljósmæðrum, mæðrum og feðrum sem heyja kjarabaráttuna og hafa látið í sér heyra.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ólöfu Ástu Ólafsdóttur sem er send fyrir hönd kennara í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands.

„Við förum fram á að heilbrigðisyfirvöld og stjórnendur heilbrigðisstofnana vinni með heilum huga að réttlátri lausn, bættum kjörum, aðlögun vinnuskyldu og aðstöðu í barneignarþjónustunni. Þetta eru grundvallarforsendur fyrir því að nemendur í ljósmóðurfræði fái viðunandi klíníska kennslu, verði hæfar ljósmæður, líði vel og stundi ljósmóðurstörf til frambúðar,“ segir í yfirlýsingunni.

„Við styðjum líka þá sem taka ábyrgð og liðka fyrir lausnum og/eða hafa vald til að gera róttækar breytingar á launakerfi kvenna; og umönnunar- og menntageirans. Kjaradeilu ljósmæðra verður að leysa hratt, vel og á skynsamlegan hátt fyrir íslenskt samfélag, mæður, börn, feður og fjölskyldur.“

Fram kemur að ef framhald verið á uppsögnum ljósmæðra veikist barneignaþjónustan og jákvæður árangur hennar að sama skapi.

Þegar annríkið sé mikið hjá ljósmæðrum og þeim ætlað að sinna mörgum verkum, samhliða klínískri kennslu, komi það niður á gæðum kennslu og umönnunar í barneignarferlinu. Staðan sé afleit og hafi áhrif á öryggi barnshafandi kvenna og barna þeirra.

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar

Yfirlýsingin í heild sinni:

„Staðan í kjarabaráttu ljósmæðra er afar erfið. Það má segja að beðið sé eftir farsælli fæðingu. Hún er langdregin og yfirsetan kallar á gagnkvæma virðingu, samstöðu og þolinmæði þegar leita þarf ýmissa úrræða fyrir stofnanir og fólk sem kjaradeilan hefur áhrif á. Spurningin er eins og oft áður; hverjir bera ábyrgðina?

Baráttan snýst um kjarabætur fyrir ljósmæður sem felast í sanngjarnri leiðréttingu á grunnröðun launa til samræmis við ábyrgð í starfi og 6 ára grunn- og framhaldsnám í háskóla, sem leiðir til tvöfaldra starfréttinda í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði. Nú lítur út fyrir að fjárfesting í menntun, faglegri færni og reynslu ljósmæðra fari í auknum mæli til spillis í heilbrigðisþjónustunni. Ljósmæður eru að yfirgefa starfið sem þær hafa menntað sig til. Þær hafa lengi verið boðnar og búnar þegar "kallað er á ljósmóðurina" en núna segjast þær ekki lengur geta haldist í þessu krefjandi en gefandi starfi; af hugsjón.

Enn ber á því að ljósmæðrum séu ætluð "guðslaun" svo vitnað sér til yfir 200 ára menntunarsögu og verðmats ljósmóðurstarfa, þrátt fyrir sérhæfða þekkingu og mikla ábyrgð í starfi. Stöðugildi ljósmæðra og mönnunarmódel eru ekki í samræmi við umfang eða mikilvægi barneignarþjónustu og klínískrar kennslu nemenda í heilbrigðisgreinum; og er vinnuálag eftir því.

Háskólasjúkrahúsið Landspítali er langstærsti fæðingarstaður landsins en 75% allra fæðinga fara þar fram. Það er einnig helsta kennslustofnun ljósmæðra og ber sem slikt mikla ábyrgð á að kjaradeilan leysist. Ljósmóðurfræðin er starfsháskólagrein og eðli hennar samkvæmt lærist þetta fag, um barneignarferli, kyn- og kvenheilbrigði, að stórum hluta (klínískt nám og starfsþjálfun er 65%) við hlið kvenna og aðstandenda þeirra, á vettvangi og undir handleiðslu reyndra umsjónarljósmæðra.

Þegar ljósmæður hverfa frá störfum vefur vandinn upp á sig. Það er ljóst að ef framhald verður á uppsögnum ljósmæðra veikist barneignaþjónustan og jákvæður árangur hennar sem er með því besta sem gerist í heiminum, að sama skapi. Þegar annríki er mikið og ljósmæðrum er ætlað að sinna mörgum verkum, samhliða klínískri kennslu, þá kemur það niður á gæðum kennslu og umönnunar í barneignarferlinu. Þessi afleita staða hefur áhrif á öryggi barnshafandi kvenna og barna þeirra. Kennarar í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands harma þetta ástand og standa þétt að baki ljósmæðrum, mæðrum og feðrum sem heyja kjarabaráttuna og hafa látið í sér heyra.

Við förum fram á að heilbrigðisyfirvöld og stjórnendur heilbrigðisstofnana vinni með heilum huga að réttlátri lausn, bættum kjörum, aðlögun vinnuskyldu og aðstöðu í barneignarþjónustunni. Þetta eru grundvallarforsendur fyrir því að nemendur í ljósmóðurfræði fái viðunandi klíníska kennslu, verði hæfar ljósmæður, líði vel og stundi ljósmóðurstörf til frambúðar. Við styðjum líka þá sem taka ábyrgð og liðka fyrir lausnum og/eða hafa vald til að gera róttækar breytingar á launakerfi kvenna; og umönnunar- og menntageirans. Kjaradeilu ljósmæðra verður að leysa hratt, vel og á skynsamlegan hátt fyrir íslenskt samfélag, mæður, börn, feður og fjölskyldur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert