Þröngar götur slökkviliðinu til ama

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta eru krúttlegar götur í miðborginni og ef menn leggja ekki rétt þá geta þær orðið ansi þröngar,“ segir Birgir Finnsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, en bílar slökkviliðsins lentu í vandræðum á leið sinni að húsi í Óðinsgötu í miðborg Reykjavíkur þar sem eldur kom upp í gærkvöldi.

Birgir segir þetta eitthvað sem slökkviliðsmenn hafi alltaf ákveðnar áhyggjur af. „Þetta voru jafnvel hátt í tvær mínútur sem þeir töfðust.“

Hann segir það ekki hafa skipt sköðum í þessu tilfelli en að sjálfsögðu viti menn ekki fyrir fram að hverju þeir ganga.

Eldur kom upp í kjallara húss við Óðinsgötu í gærkvöld.
Eldur kom upp í kjallara húss við Óðinsgötu í gærkvöld. Ljósmynd/Sesselja María Mortensen

„Þetta útkall fór að mörgu leyti eins vel og á var kosið. Það var enginn í húsinu og við náðum fljótt að slá niður eldinn. En það er auðvitað alltaf þannig í svona tilfellum að maður veit aldrei fyrirfram og það er mjög bagalegt þegar við komumst ekki um þessar götur, hvort sem það er á slökkvibílum eða sjúkrabílum.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert