Fullgilda samning um baráttu gegn ofbeldi

Velferðarráðherra mun afhenda fullgildingarskjal Íslands á samningi Evrópuráðsins um forvarnir …
Velferðarráðherra mun afhenda fullgildingarskjal Íslands á samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi á rakarastofuráðstefnu í París síðar í þessari viku. mbl.is/Eggert

Utanríkisráðuneytið hefur hafið undirbúning að fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að stefnt sé að því að velferðarráðherra afhendi fullgildingarskjal Íslands framkvæmdastjóra Evrópuráðsins á rakarastofuráðstefnu í París síðar í þessari viku.

Samningurinn var samþykktur af Evrópuráðinu 11. maí 2011 og undirrituðu íslensk stjórnvöld hann sama dag. Samningurinn byggist á þeirri forsendu að ofbeldi gegn konum sé ein alvarlegasta tegund kynbundinna mannréttindabrota í heiminum. Markmið hans er meðal annars að vernda konur gegn öllum birtingarmyndum ofbeldis og fyrirbyggja ofbeldi, sækja til saka gerendur og uppræta ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.

Mikilvægt skref í útrýmingu kynbundins ofbeldis

„Jafnréttismál hafa lengi verið í forgrunni utanríkisstefnu Íslands. Við nýtum hvert tækifæri til að tala fyrir jafnrétti kynjanna og leggjum mikla áherslu á að kynbundnu ofbeldi, í hvers konar mynd, verði útrýmt bæði heima og heiman. Fullgilding þessa samnings er mikilvægt skref í þeirri baráttu,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í tilkynningu.  

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hafa stjórnvöld gert nauðsynlegar breytingar á íslenskri refsilöggjöf til að hægt verði að fullgilda samninginn, meðal annars með breytingum á lögum um meðferð sakamála sem dómsmálaráðherra lagði fram. „Í þau hafa verið sett ákvæði um heimilisofbeldi, nauðungarhjónabönd og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir,“ segir í tilkynningu.

Þá hefur verið unnið að því að koma í farveg ýmsum skyldum og aðgerðum sem hvíla á ríkinu samkvæmt samningnum en krefjast ekki lagabreytinga, svo sem varðandi rekstur kvennaathvarfa, aðra þjónustu við þolendur og meðferð fyrir gerendur.

Hægt er að lesa samninginn í heild sinni á vef stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert