Segja samning ekki á borði ráðherra

95 ljósmæður sem sinna heimaþjónustu leggja niður störf í dag.
95 ljósmæður sem sinna heimaþjónustu leggja niður störf í dag. mbl.is/Hanna

Heilbrigðisráðherra leggur kapp á að finna fyrirkomulagi á þjónustu við sængurkonur í heimahúsum traustari umgjörð en felst í þeim rammasamningi sem starfað hefur verið eftir hingað til. Þótt afsögn ljósmæðra af rammasamningi snerti nýbakaðar mæður óhjákvæmilega munu þær engu að síður njóta allrar þjónustu sem þörf er fyrir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.

Þar segir enn fremur að það sé ekki rétt sem haldið hefur verið fram að fyrir liggi drög að samningi í velferðarráðuneytinu sem bíði staðfestingar heilbrigðisráðherra. Sjúkratryggingar Íslands hafi 23. mars komið á framfæri við ráðuneytið minnisblaði með tillögum að breytingum á rammasamningum sem starfað hefur verið eftir hingað til.

„Tillögurnar sem  um ræðir fela í sér skerðingu á heimaþjónustu ljósmæðra sem ljóst er að myndu hafa töluverð áhrif inn á fæðingardeildir sjúkrahúsanna, þar sem verið væri að breyta faglegum áherslum þjónustunnar með lengri legutíma hjá hluta mæðra og það fæli jafnframt í sér aukið álag á fæðingardeildirnar,“ segir í tilkynningunni.

Ráðuneytið leitaði umsagnar Sjúkrahússins á Akureyri og Landspítala vegna tillagnanna. Viðbrögð beggja spítala voru á þá leið að breytingar sem lagðar eru til á þjónustunni eru óæskilegar og leiðir til lakari þjónustu við mæður og foreldra nýbura og aukins kostnaðar.

Velferðarráðuneytið fundar síðar í dag með Sjúkratryggingum Íslands um stöðu málsins og næstu skref.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert